Innlent

Ólöglega búið í húsum í Hafnarfirði

Hrund Þórsdóttir skrifar
Við stjórn byggingaframkvæmda ber byggingastjóri ábyrgð á að lögum og reglugerðum sé fylgt. Hann boðar byggingarfulltrúa til áfangaúttekta og þegar húsi hefur verið lokað fyrir veðri og vindum fer fram fokheldisúttekt. Óheimilt er að flytja inn í hús nema fram hafi farið öryggisúttekt og þremur árum síðar skal mannvirkið fullgert og farið í lokaúttekt.

Svona eiga hlutirnir að vera en í raunveruleikanum eru þeir oft öðruvísi. Í þenslunni gerðust hlutir hratt og árið 2006 var til dæmis úthlutað lóðum undir 950 hús og íbúðir í Hafnarfirði og erfitt var að fylgjast með öllu. Bjarki Jóhannesson, skipulags- og byggingarfulltrúi Hafnarfjarðar, hefur lengi átt í útistöðum við byggingarstjóra vegna vanefnda. Sumir klára ekki verk sín og fara ekki í lögboðnar úttektir. „Nú oft er flutt inn í húsin án þess að þessar úttektir hafi farið fram, sem er ekki löglegt samkvæmt mannvirkjalögum eða eldri byggingalögum. Það er þetta sem við erum að berjast við, að fá byggingarstjórana til að klára og það gengur upp og ofan,“ segir Bjarki.

Á annað hundrað mál eru í gangi vegna þessa. Þar af eru 30 í dagsektaferli og erindi um áminningu á 5 byggingarstjóra hafa verið send Mannvirkjastofnun. Mikilvægt er að ljúka málunum vegna öryggismála og neytendaverndar sem tryggir gæði húsanna. Þá er um tekjulind fyrir sveitarfélög að ræða þar sem fokheldisskráningar og lokaúttektir hækka fasteignagjöld.

Bjarki hvetur byggingarstjóra og eigendur húsa til að sinna lögboðnum skyldum sínum. „Það virðist bíta best á þá ef maður birtir nöfnin þeirra, ég geri það nú orðið í fundargerðum. Þeim er illa við að fá nafnið sitt á prent og það dugar oft best.“

Mörg húsanna eru í iðnaðarhverfum og starfsemi í þeim í raun ólögleg. „Neyðarúrræði væri náttúrulega að láta loka húsunum en það er hlutur sem við viljum helst ekki fara út í.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×