Enski boltinn

Neymar vill Rooney til Barcelona

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Rooney skorar glæsilegt mark í landsleik gegn Brasilíu í sumar.
Rooney skorar glæsilegt mark í landsleik gegn Brasilíu í sumar. MYND:NORDIC PHOTOS/GETTY
Nýjasti leikmaður Spánarmeistara Barcelona í fótbolta, Brasilíumaðurinn Neymar, hefur sagt Wayne Rooney að spænska stórliðið sé rétta liðið fyrir hann en Rooney hefur þráðlátlega verið orðaður við hin ýmsu stórlið Evrópu í sumar.

Rooney á tvö ár eftir af samningi sínum við Manchester United en hann óskaði eftir sölu frá félaginu undir lok síðasta keppnistímabils. Talið er að Barcelona, Real Madrid og Chelsea séu öll tilbúin að borga 25 milljónir punda fyrir framherjann öfluga.

Fregnir í morgun herma að Rooney hafi rætt við nýjan stjóra Manchester United og fyrrum knattspyrnustjóra sinn hjá Everton að hann verði aðeins áfram hjá félaginu fái hann nýjan og endurbættan samning sem skili honum viðlíka tekjum og sala til spænsku stórliðanna eða Chelsea myndu gera.

Brasilíska nýstirnið Neymar tjáði sig um stöðu Rooney í viðtali fyrir úrslitaleik Álfukeppninnar í Brasilíu.

„Leikstíll Barcelona og gæði leikmanna liðsins gera félagið að hinum fullkomna áfangastað fyrir bestu leikmenn heims,“ sagði Neymar.

„Ég hef hitt Wayne nokkrum sinnum og hann virðist vera góður náungi og það sem meira skiptir hann er einn sá leikmaður í heiminum sem mér þykir mest til koma.

„Wayner er einn hæfileikaríkasti og teknískasti leikmaður heimsins. Auðvitað myndi hann bæta Barcelona. Hann myndi bæta öll lið Evrópu. Og fyrir mig myndi draumur rætast ef við myndum leika saman,“ sagði Neymar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×