Fótbolti

Brassarnir léku sér að heimsmeisturunum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / AFP
Neymar og félagar hans í brasilíska landsliðinu unnu sögulegan sigur á Spáni, 3-0, í úrslitaleik Álfukeppninnar í kvöld.

Brasilía varð þar með fyrsta þjóðin til að vinna Álfubikarinn þrisvar í röð en Spánn, sem er ríkjandi heims- og Evrópumeistarar, átti ekki roð í þá gulklæddu í kvöld.

Neymar, sem leikur með Barcelona á næstu leiktíð, fór á kostum í kvöld eins og fleiri í brasilíska liðinu. Hann skoraði eitt mark og átti þátt í öðru, auk þess sem að hann lék varnarmenn Spánverja oft grátt. Sergio Ramos fékk beint rautt spjald undir lok leiksins fyrir að brjóta á Neymar þegar hann var að sleppa í gegn.

Fred var einnig magnaður og skoraði hin tvö mörkin fyrir Brasilíu í kvöld, það fyrra strax á 2. mínútu. Neymar bætti við öðru undir lok fyrri hálfleiks með frábæru skoti og Fred innsiglaði sigurinn með þriðja markinu í upphafi þess síðari.

Spánverjar fengu þó sín færi líka. David Luiz varði frábærlega á línu frá Pedro og Sergio Ramos skaut framhjá úr vítaspyrnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×