Enski boltinn

Þýðir ekki að halda óánægðum Suarez

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jamie Carragher og Luis Suarez.
Jamie Carragher og Luis Suarez. Nordic Photos / Getty Images
Jamie Carragher telur að það sé ekki til neins að halda Luis Suarez hjá Liverpool ef hann er óánægður með dvöl sína þar.

Mikið hefur verið rætt og ritað um framtíð Suarez en hann sjálfur hefur gefið í skyn að hann sé spenntur fyrir því að ganga til liðs við Real Madrid.

Hann hefur einnig sagst vera óánægður með lífið í Englandi en hann mun byrja næsta keppnistímabil í leikbanni eftir að hafa bitið Branislav Ivanovic, leikmann Chelsea.

„Við höfum reynslu af því að vera með óánægða leikmenn frá því að Fernando Torres var hér. Það var rangt að halda honum því síðustu átján mánuðina var hann mjög ólíkur sjálfum sér,“ sagði Carragher við enska fjölmiðla en varnarmaðurinn sterki lagði skóna á hilluna í vor.

„Ég tel að Torres hafi á stundum ekki lagt sig allan fram fyrir Liverpool og því voru það mistök að halda honum óviljugum hjá félaginu. En ég reikna ekki endilega með því að hið sama muni gera í tilfelli Suarez því þeir eru ólíkir einstaklingar.“

„En engu að síður þurfum við að vera meðvitaðir um þessa hættu. Suarez er einn besti leikmaður heims en að spila með liði sem hafnaði í sjöunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Að sjálfsögðu finnst honum freistandi að fara til liðs eins og Real Madrid.“

„Ef Suarez ákveður að fara verður Liverpool að fá eins mikið og mögulegt er fyrir hann.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×