Innlent

"Gríðarleg tækifæri til að bæta kjör heimilanna“

Jóhannes Stefánsson skrifar
Verð á landbúnaðarvörum hefur hækkað mjög mikið, en Margrét segir einfalt að sporna við því með því að gefa innflutning á sumum þeirra frjálsan.
Verð á landbúnaðarvörum hefur hækkað mjög mikið, en Margrét segir einfalt að sporna við því með því að gefa innflutning á sumum þeirra frjálsan. Mynd/ Anton
Tollar og vörugjöld voru til umræðu á fundi á vegum Frjálshyggjufélagsins á Sólon í gærkvöldi. Margrét Kristmannsdóttir, framkvæmdastjóri SVÞ var með erindi á fundinum, en samtökin hafa seinustu misseri barist fyrir því að ýmis vörugjöld verði afnumin og tollar lækkaðir.

„Við verðum að reyna að tryggja það að við aukum kaupmátt hér á landi með skynsamlegum hætti. Þá megum við ekki horfa framhjá þeim tækifærum sem liggja í því að auka hér frjálsræði í innflutningi landbúnaðaravara. Þar eru gríðarleg tækifæri og ofboðslega margar krónur sem gætu komið í vasa heimilanna," segir Margrét.

Margrét segir lækkun álaga einföldustu og fljótlegustu leiðina til að íslensk heimili fái kjarabætur. „Við höfum talið að það sé rétt að fara ákveðna blandaða leið til að ná fram auknum kaupmætti með annars vegar hóflegum launahækkunum sem atvinnulífið ræður við og hinsvegar með því að létta álögur á nauðsynjavörur sem að heimilin hér í landinu bera. Þannig er líka hægt að hækka kaupmátt með lækkuðu vöruverði."

Vitund á áhrifum tolla og vörugjalda að aukast

Margrét telur vitund íslenskra neytenda á áhrifum tolla og vörugjalda á vöruverð vera að aukast en hingað til hafi verslunarrekendur nánast einir fengið skammir neytenda fyrir hátt vöruverð. „Verslanir hafa stundum verið sakaðar um að þær myndu bara hirða alla lækkunina sem yrði á vöruverði vegna þessa. En neytendur hafa bara mjög góða reynslu af þessu. Þegar virðisaukaskattur og vörugjöld á matvæli var lækkaður  árið 2007 fylgdu samkeppnisyfirvöld því eftir og skiluðu skýrslu í fyrra. Skýrslan sýndi að hver einasta króna sem verslunin fékk í lækkaðar álögur skilaði sér strax í vasa neytenda."

Margrét telur íslenska neytendur illa upplýsta um hvers vegna vöruverð sé jafn hátt og raun ber vitni. Hún segir fólk almennt ekki átta sig á að „það sé verið að leggja á þessi gamaldags vörugjöld, sem engin önnur lönd gera í kringum okkur. Þessi vörugjöld eru nánast allstaðar lögð á tóbak, áfengi og olíu en hér heima erum við að leggja þau líka á matvæli, þvottavélar, kæliskápa, sjónvörp, byggingavörur, parket, gólfefni og svona einfaldar nauðsynjavörur sem náttúrulega gerir ekkert annað en að hækka vöruverð mikið."

Vil að næstum öll vörugjöld verði afnumin

„Við höfum barist fyrir því ötullega að vörugjöld verði afnumin af öllu nema vörum sem eru flokkaðar sem óhollustuvörur og eitthvað sem mengar. Þetta eru helst áfengi, tóbak og olía. En að leggja þetta á matvæli erum við mjög ósátt við.

Margrét segir verð á landbúnaðarvörum hátt fyrst og fremst vegna verndartolla.

„Síðan þegar kemur að þessum tollum þá lúta þeir mjög mikið að landbúnaðarvörunum. Þar höfum við bent á gríðarleg tækifæri til kaupmáttaraukningar fyrir heimilin ef að við náum að draga úr þessari ofboðslegu tollvernd. Höldum hlífðarskyldi yfir hinum hefðbundna gamla íslenska landbúnaði. En við erum að leggja alla þessa háu tolla á kjötframleiðslu í landinu, líka hvítt kjöt sem er að megninu til framleitt í verksmiðjum í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Það er eitthvað sem að við eigum ekki að gera."

Margrét telur einboðið að tollar á hvítt kjöt verði lækkaðir og innflutningur gefinn frjáls. „Þannig að við höfum sagt, fellum niður vernd á hvíta kjötið og við getum lækkað það um 30-50%. Þetta er vinsælasta kjötvaran í innkaupakörfum heimilanna. Það erum sem betur fer ekki bara við sem höfum gert þetta heldur hefur Samráðsvettvangur um aukna hagsæld verið að leggja til nákvæmlega sömu leið og við, að aflétta innflutningshömlum á hvíta kjötið."

„Gefum þá neytendunum allavega færi á því að kaupa mjög góða innflutta vöru á mun lægra verði. Þá er þetta bara í höndum neytandans að velja hvort hann vilji kaupa ódýra innflutta vöru eða dýrari íslenska vörum. En þá erum við ekki að vernda og koma í veg fyrir að neytandanum standi þetta til boða. Þau heimili sem standa verst að vígi geta þá aukið kaupmátt sinn með mjög einföldum hætti," segir Margrét að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×