Innlent

"Verið hress - ekkert stress - bless"

Boði Logason skrifar
Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar Framtíðar, á Alþingi í kvöld.
Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar Framtíðar, á Alþingi í kvöld. Mynd/Stefán

„Ég borða lambakjöt, ég á margar lopapeysur, ég er BA í íslensku, ég hef lesið allar Íslendingasögurnar og ég elska mitt land,“ sagði Guðmundur Steingrímsson á Alþingi í kvöld.

Í ræðu sinni sagði Guðmundur að Björt Framtíð, og hugsanlega fleiri, ætlaði að leggja fram þingsályktunartillögu á sumarþinginu þess efnis að farið yrði í þjóðaratkvæðagreiðslu innan eins árs um það hvort að halda eigi viðræðunum við Evrópusambandið áfram. „Ég vænti þess að það sé víðtækur stuðningur til þessa máls.“

Guðmundur sagði að mikil tímamót væru núna í pólitíkinni og ný kynslóð væri tekin við stjórnartaumunum, bæði í stjórn og stjórnarandstöðu. „Í þessu felast mikil tækifæri,“ sagði hann og benti á að síðasta kjörtímabili hafi verið mjög óvenjulegt og erfitt.

Þá kom hann inn á það að mikilvægt væri að þingmenn stunduðu vönduð vinnubrögð á Alþingi. Björt framtíð ætlaði að stunda uppbyggilega umræðu. „Við ætlum ekki að hindra það að mál fari í atkvæðagreiðslu, við ætlum að tryggja að mál fái vandaða meðferð hér í þinginu.“

Hann kom einnig inn á skuldamál heimilanna og sagði að þingmenn Bjartrar framtíðar ætluðu að spyrja gagnrýnna spurninga í því sambandi.

Og hann vitnaði í Hemma Gunn: „Ég ætla að leyfa mér að enda þessa ræðu mína á frægum orðum Hermanns Gunnarssonar; Verið hress - ekkert stress - bless," sagði Guðmundur í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×