Innlent

Ekki hægt að treysta á jarðvarmavirkjanir fyrir álver

Karen Kjartansdóttir skrifar

Endurhugsa þarf orkugjafa til álvers í Helguvík þar sem vandséð er að jarðvarmavirkjanir geti nýst því í náinni framtíð. Þetta segir fyrrverandi háskólarektor og starfsmaður Orkustofnunar.

Orka Hellisheiðarvirkjunar er langt undir væntingum. Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra að reynslan við jarðvarmavirkjanir sýndi að frekari áherslu þyrfti að leggja á vatnsaflsvirkjanir en fyrri ríkisstjórn gerði. Best færi á að nýta og byggja upp vatnsafls- og jarðvarmavirkjanir samhliða.

Til þess þyrfti að endurskoða rammaáætlun en virkjunarhugmyndirnar þrjár í neðri hluta Þjórsár, það er að segja Hvammsvirkjun, Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun, falla nú allar í biðflokk.

Sveinbjörn Björnsson, fyrrverandi rektor Háskóla Íslands sem einnig vann lengi hjá Orkustofnun, segir jarðvarmavirkjanir henta illa sem orkugjafa þegar kemur að fyrirhuguðu álveri Helguvík.

Þær þurfi að byggja upp í áföngum, óheppilegt hafi verið að byggja jafn stóra einingu og Hellisheiðarvirkjun á sínum tíma.

„Það er alveg ljóst og hefur alltaf verið að jarðhitavirkjanir henta ekki til stórra áfanga í álverum. Það er eðlilegast að byggja þær virkjanir upp á nokkuð mörgum árum. Stíga kannski skref á borð við 50 megavött í hvert sinn og þannig láta reynsluna skera úr um hversu stór stöðin getur orðið. Vatnsaflsvirkjanir eru annars eðlis það er hægt að meta strax hve mikið afl þær gefa," segir Sveinbjörn.

Hann segir að kröfur áliðnaðarins séu nú hins vegar svo miklar að mjög erfitt gæti verið að afla nægrar orku sem gæti nýst Helguvík.



„Við eigum enga vatnsaflsvirkjun sem nær því afli, þess vegna verðum við að smala saman úr mörgum virkjunum. Það er hugsanlegt að það megi smala saman einhverjum vatnsaflsvirkjunum en á jarðhitavirkjanirnar er ekki að treysta nema að þeim sé gefin tími til að byggja þær upp í áföngum svo menn skilji hvað þær þola," segir Sveinbjörn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×