Innlent

Bubbi skrifar um Leoncie: „Farðu nú að þegja!“

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Bubbi er harðorður í garð Leoncie á bloggi sínu.
Bubbi er harðorður í garð Leoncie á bloggi sínu. samsett mynd

Bubbi Morthens gerir söngkonuna Leoncie að umfjöllunarefni á bloggi sínu í dag undir fyrirsögninni „Þegar hæfileikana vantar“.

„Mikið er ég orðinn leiður á ásökunum um að íslenskir tónlistarmenn leggi ákveðna tónlistarkonu í einelti,“ skrifar Bubbi og vísar þar meðal annars til þess þegar söngkonan sakaði Björgvin Halldórsson um að „hafa verið fyrstur íslenskra  tónlistamanna til þess að leggja stein í götu hennar vegna þjóðernis og litarháttar.“

Bubbi segir Björgvin þannig mann að hann myndi aldrei gera slíkt. „Svo vel þekki ég íslenska tónlistarbransann og Björgvin að  öll þessi gífuryrði og ásakanir um illsku í hennar garð er bull. Sumt fólk getur sungið og gerir það vel aðrir ekki. Sumir hafa hæfileika, aðrir ekki.“

Þá segir Bubbi að það að söngkonan sé ekki orðin heimsfræg sé ekki íslenskum tónlistarmönnum að kenna. Hún hafi fengið tækifæri hér á landi sem engin önnur þjóð hafi gefið henni, eigi greiðan aðgang að fjölmiðlum, sem hún noti til þess að rakka niður íslenska tónlistarmenn með svívirðingum.

Að lokum skrifar Bubbi: „Leoncie; farðu að þegja. Það er komið nóg af ásökunum og svívirðingum í garð íslenskra tónlistarmanna sem margir hverjir hafa reynst þér vel. Þú ert einfaldlega dóni með hrikalegt ofmat á eigin getu og hæfileikum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×