Innlent

Kalkþörungavinnslan blómstrar á Bíldudal

Kristján Már Unnarsson skrifar

Stækkun kalkþörungaverksmiðjunnar á Bíldudal er á lokastigi og er stefnt að því að auka framleiðsluna um fjörutíu prósent með nýrri vélasamstæðu, sem ræst verður í næsta mánuði. Þetta er eitt dæmið um uppganginn sem nú er hafinn á sunnanverðum Vestfjörðum.

Þegar kalkþörungavinnslan hófst fyrir sex árum breyttist Bíldudalur í námabæ. Hráefni er tekið af botni Arnarfjarðar og þurrkað og sekkjað í landi. Heilu skipsfarmarnir af kalkþörungum fara nú reglulega frá Bíldudal til erlendra kaupenda og svo vel gengur að selja vöruna að þörf er á að margfalda afkastagetuna.

Í fyrra var hafist handa við að stækka verksmiðjuna og bæta við öðrum og afkastameiri þurrkara og þessa dagana er vart þverfótað fyrir iðnaðarmönnum að störfum. Þeir voru 15-16 að störfum, þegar Stöð 2 var að kvikmynda á svæðinu, og þörf á fleirum, að sögn framkvæmdastjórans.

Flutningaskip við bryggju að sækja kalkþörunga til útflutnings.

Með nýju þurrkarahúsi á að koma ársframleiðslunni úr 35 þúsund tonnum og upp í þau 50 þúsund tonn, sem starfsleyfi er fyrir. Jafnframt er markmiðið að auka rekstraröryggi og auka fjölbreytni framleiðslunnar, eins og Guðmundur Valgeir Magnússon, framkvæmdastjóri Íslenska kalkþörungafélagsins lýsir í viðtali í fréttum Stöðvar 2. 

„Það bíða kaupendur eftir meira efni og meiri framleiðslu, þannig að til þess að anna þeirri eftirspurn er ekkert annað að gera en stækka."

Kalkþörungarnir eru sóttir á botn Arnarfjarðar og þurrkaðir og sekkjaðir á Bíldudal.

Kalkþörungarnir eru seldir sem fóðurbætir fyrir búpening, nautgripi, svín og kjúklinga, en einnig sem áburður og til nota í vatnshreinsibúnað, og þeir hjálpa nú Bíldudal til að blómgast. 

„Ég byrjaði einn árið 2005 en við erum núna 20 hérna. Þannig að fyrirtækið hefur verið að bólgna upp og stækka og koma sér fyrir í þessum fallega firði hér," segir Guðmundur Valgeir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×