Innlent

Segir skuldavanda heimilanna ekki komast inn í næstu fjárlög

Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagði á Alþingi fyrir stundu að málefni skuldavanda heimilanna kæmust ekki inn í fjárlög fyrir næsta ár.
Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagði á Alþingi fyrir stundu að málefni skuldavanda heimilanna kæmust ekki inn í fjárlög fyrir næsta ár.
Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagði á Alþingi fyrir stundu að málefni skuldavanda heimilanna kæmust ekki inn í fjárlög fyrir næsta ár.

Hún sagði í ræðu sinni undir umræðum um aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna á Íslandi, að ef þingsályktunartillaga sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra lagði fram fyrr í vikunni yrði samþykkt, fæli það í sér að nefnd um málið skilaði ekki af sér fyrr en í nóvember.

Í þingsályktunartillögunni er farið fram á að Alþingi feli ríkisstjórninni að framkvæma aðgerðaáætlun til að leiðrétta skuldir heimila. Þetta telur Svandís sérkennilegt, „Þarna er verið að biðja þingið um að biðja ríkisstjórnina um að efna kosningaloforðin sín,“ sagði Svandís.

Hún segir tillöguna í besta falli undarlega og bendir á að ef hún verður samþykkt, lýkur sérstök nefnd vinnu sinni í nóvember, og þá verður vinna í fjárlagagerð komin svo langt að það verður of seint að koma málinu á dagskrá fyrir næsta ár. Hún bað því um skýra tímaáætlun, hvenær loforðið kæmist í framkvæmd.

Svandís benti svo á að engar nefndir hafi þurft til þess að fella niður veiðileyfagjaldið.

Sigmundur Davíð hafnaði þessu og sagði það undarlegt að þingmenn væru undrandi á að því að ekki væru kosningaloforð efnd samstundis. Hann ítrekaði svo gagnrýni sem hann hefur viðhaft áður um að fyrri ríkisstjórn glutraði niður tækifærinu að fella niður skuldir skömmu eftir hrun.

Sigmundur sagði einnig að það væri aum pólitík að gera andstæðingnum upp skoðanir og ráðast svo á þær. „Það er því miður nokkuð sem stjórnarandstaðan hefur stundað allengi,“ sagði Sigmundur Davíð sem sagði stjórnarandstöðuna vera á ská og skjön við málflutning sinn frá kosningabaráttunni.

Þannig spurði hann hvort stjórnarandstaðan ætlaði að gagnrýna ríkisstjórnina fyrir að bera á borð tillögur sem þarfnist úrlausnar eða hvort það eigi að gagnrýna flokkinn fyrir að leggja fram tillögu sem verði vel unnin svo það sé hægt að búa til góð lög um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×