Innlent

Segir ummæli SDG um stéttaskiptingu lýsa veruleikafirringu

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segir það lýsa veruleikafirringu hjá forsætisráðherra að halda því fram að ekki hafi þrifist stéttaskipting á Íslandi. Hann furðar sig jafnframt á gagnrýni á AGS.

„Ríkisstjórn með almennilegt sjálfstraust og skýra framtíðarstefnu þarf ekki á því að halda að vera að hnýta í nágrannaþjóðir eða alþjóðastofnanir á þjóðhátíðardaginn," segir Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar um ræðu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra.

Sigmundur Davíð sagði í ræðu sinni að ríkisstjórnin myndi ekki láta „alþjóðastofnun segja okkur að ekki sé hægt að gera meira fyrir íslensk heimili um leið og minnt er á mikilvægi þess að ljúka uppgjöri efnahagshrunsins.“

AGS lánaði okkur gríðarlegar fjárhæðir eftir hrunið. Þessi skoðun sjóðsins að við sýnum ábyrgð í ríkisfjármálum, er hún ekki réttmæt? „Mér finnst þetta dálítið athyglisvert með hvaða hætti forsætisráðherra hnýtir í Alþjóðagjaldeyrissjóðinn því sjóðurnn hefur í sjálfu sér bara verið að segja það sama og ég hef sagt og forsætisráðherrann tekið undir. Að það séu ekki til peningar í ríkissjóði til þess að borga skuldaleiðréttingar," segir Árni Páll.

Árni Páll gerir athugasemdir við fleira í ræðu forsætisráðherra. Hann segir að ummæli hans um hina stéttlausu þjóð ekki standast skoðun í ljósi sögunnar á Íslandi, en orðrétt sagði forsætisráðherra: „Ísland hefur ekki verið stéttskipt á sama hátt og mörg önnur lönd og það er einn af mörgum góðum kostum þess að byggja þetta land. En það er ekki sjálfgefið að svo verði um aldur og ævi. Þess vegna þurfum við að gæta þess vel að hér verði ekki til tvær eða fleiri þjóðir í sama landi.“

„Mér finnst þetta vera rangur skilningur á íslenskri sögu og íslenskri þjóðmenningu. Hér hefur verið um aldir verið gríðarleg misskipting og hún er enn til staðar í dag. Mér finnst það sýna vissa veruleikafirringu af hálfu forsætisráðherra að gera sér ekki grein fyrir því hversu misskipt er kjörum fólks í landinu. Og þetta sýnir ekki mikinn skilning á hlutskipti þeirra sem minnst hafa á milli handanna í íslensku samfélagi í dag,“ segir Árni Páll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×