Fótbolti

Real Madrid reiðubúið að greiða Ronaldo 25 milljarða í laun

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Real Madrid ætlar ekki að missa Cristiano Ronaldo frá sér og er sagt viljugt til að bjóða kappanum himinhá laun til þess.

Ronaldo mun hafa átt í viðræðum við Real Madrid um nýjan samning samkvæmt fjölmiðlum ytra en félagið vill semja við hann til næstu fimm ára.

Ronaldo fær um tíu milljónir evra, 1,6 milljarða, í árslaun í dag en fengi helmingi meira útborgað samkvæmt nýja samningnum.

Stærsti munurinn felst þó í því að spænsk yfirvöld hafa breytt skattalöggjöfinni á þann veg að Ronaldo þyrfti að greiða mun hærri skatt en áður - 52 prósent í stað 23 prósenta.

Það þýðir að Real Madrid þyrfti að greiða Ronaldo um 32 milljónir evra (5,1 millarð króna) í árslaun til að hann fengi um fimmtán milljónir útborgaðar. Yfir fimm ára tímabil gerir það 155 milljónir evra - 25 milljarða króna.

Um stærsta launsamning yrði að ræða í sögu knattspyrnunnar. Lionel Messi fær þrettán milljónir evra hjá Barcelona og Radamel Falcao fjórtán hjá Monaco.

Sá eini sem er á hærri árslaunum er Samuel Eto'o hjá rússneska félaginu Anzhi en þar fær hann 20 milljónir evra árlega. Samningur hans við félagið nær þó aðeins til þriggja ára.

Fjölmargir leikmenn hafa verið orðaðir við Real Madrid á undanförnum vikum en ólíklegt er að þeir komi í sumar. Meðal þeirra má nefna Ilkay Gündogan og Robert Lewandowski hjá Dortmund, Sergio Agüero hjá Manchester City og Tottenham-manninn Gareth Bale. Þá vildi félagið einnig fá Falcao sem er farinn til Monaco.

Forráðamenn Real Madrid hafa því lagt ofuráherslu á að halda Ronaldo í sínum röðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×