Enski boltinn

Llambias hættur hjá Newcastle

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Llambias, til hægri, með Alan Pardew.
Llambias, til hægri, með Alan Pardew. Nordic Photos / Getty Images
Derek Llambias hefur sagt starfi sínu sem framkvæmdarstjóri Newcastle lausu aðeins degi eftir að Joe Kinnear var ráðinn yfirmaður knattspyrnumála.

Kinnear er afar umdeildur maður en hann veitti ótrúlegt útvarpsviðtal í vikunni þar sem hann sagðist vera gáfaðri en stuðningsmenn félagsins og fór rangt með mörg nöfn leikmanna liðsins. Hann gerði slíkt hið sama við nafn Llambias, sem hann kallaði Llambeeze.

Newcastle staðfesti þetta með stuttri yfirlýsingu á heimasíðu sinni í morgun en Llambias sagðist í henni hafa verið ánægður með þau fimm ár sem hann starfaði hjá félaginu.

Alan Pardew, knattspyrnustjóri Newcastle, verður undirmaður Kinnear hjá félaginu en þeir hittust í hádeginu í gær. Pardew mun ekki vera mjög sáttur við nýja fyrirkomulagið en ætlar að láta reyna á það.

Kinnear stýrði Newcastle í nokkra mánuði tímabilið 2008-9 en varð að hætta vegna heilsufarsvandamála. Hann stýrði einnig Wimbledon í drjúgan tíma á tíunda áratugnum og hefur margsinnis vakið athygli fyrir furðuleg ummæli sín í fjölmiðlum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×