Innlent

Matvælastofnun varar við banvænu megrunarefni

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Fæðubótarefnið "Pure Caffeine 200“  var efnagreint í Þýskalandi fyrir skömmu þar sem kom í ljós að varan innihélt um 300 mg af Dínítrófenól án þess að þess væri getið á umbúðunum. Myndin tengist frétt ekki beint.
Fæðubótarefnið "Pure Caffeine 200“ var efnagreint í Þýskalandi fyrir skömmu þar sem kom í ljós að varan innihélt um 300 mg af Dínítrófenól án þess að þess væri getið á umbúðunum. Myndin tengist frétt ekki beint. MYND/ÚR SAFNI

Inntaka lítils magns af megrunarefninu Dínítrófenol 2,4-dínítrófenól (e. 2,4-dintirophenol eða DNP) getur getur valdið eitrun sem leiðir til svitamyndunar, vöðvaverkja, öndunarerfiðleika og jafnvel dauða. Lyfið er ólöglegt á Íslandi en auðvelt er að panta það á netinu. Matvælastofnun varar við notkun fæðubótarefna sem innihalda efnið.

Efnið hefur áhrif á efnaskipti líkamans á þann hátt að í stað þess að orku sé breytt og hún notuð af frumum líkamans þá breytist hún í varma. Við þetta getur líkamshitinn hækkað svo mikið að það verður banvænt.

 

Ólöglegt efni sem auðvelt er að nálgast á netinu

Efnið er víðast hvar ólöglegt  og Matvælastofnun veit ekki til þess að það sé í umferð á hér á landi. Katrín Guðjónsdóttir, sérfræðingur hjá Matvælastofnun, segir þó að lyfið sé mjög vinsælt erlendis og að mjög auðvelt sé að nálgast það á netinu. Þá eru einnig dæmi um það að seldar séu vörur með efninu án þess að tilvist þess í vörunni sé tilgreind á umbúðum. „Ef þú hefur í huga að kaupa þetta efni þarftu í rauninni bara að slá því upp í Google sem gefur þér strax niðurstöður. Svo er þetta bara spurning um hvort að viðkomandi vefverslun sendir til Íslands og hvort að þú komir efninu hér í gegnum tollinn. Þetta er þvi miður allt of auðvelt,“ segir Katrín.

 

Hægt að rekja yfir 60 dauðsföll beint til efnisins

Uppúr 1930 var efnið markaðssett sem megrunarlyf en var fljótlega tekið af markaði þar sem það var talið mjög hættulegt og ekki hæft til neyslu fyrir fólk. Síðasta áratug hefur hins vegar borið á notkun efnisins og aukaverkana af því á ný. Vitað er um 62 dauðsföll sem hægt er að rekja beint til notkunar Dínítrófenóls.

Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu Matvælastofnunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×