Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: ÍA - Stjarnan 1-3

Stefán Hirst Friðriksson á Akranesi skrifar
Veigar Páll skoraði í kvöld.
Veigar Páll skoraði í kvöld.

Stjörnumenn unnu öruggan 3-1 útisigur á Skagamönnum í sjöttu umferð Pepsi-deildarinnar í kvöld. Leikurinn var einstefna frá upphafi til enda en heimamenn í ÍA áttu fá svör við sprækum Stjörnumönnum.

Það voru gestirnir úr Garðabænum sem mættu miklu sterkari til leiks á Skipaskaga og voru þeir með yfirhöndina allan fyrri hálfleikinn.

Stjarnan fékk aragrúa af tækifærum til þess að ná forystunni en inn vildi boltinn ekki í fjörugum fyrri hálfleik.

Garðbæingar héldu áfram að pressa stíft að marki heimamanna og tókst þeim loks að koma boltanum í netið á 59. mínútu.

Þar var að verki Veigar Páll Gunnarsson en hann kom boltanum í markið eftir klafs í teignum. Fyrsta mark Veigars í Pepsi-deildinni í sumar.

Stjörnumenn bættu við öðru marki á 82. mínútu þegar Gunnar Örn Jónsson skoraði með góðu skoti eftir stungusendingu frá Halldóri Orra Björnssyni.

Skagamönnum tókst að klóra í bakkann á 88. mínútu en þar var að verki Eggert Kári Karlsson. Það dugði ekki til því að Stjörnumenn gerðu út um leikinn í uppbótartíma.

Þá var Halldór Orri felldur innan vítateigs og vítaspyrna dæmd. Hann steig sjálfur á punktinn og skoraði.

Öruggur og mjög svo sanngjarn sigur Stjörnunnar í leik sem þeir áttu frá upphafi til enda.

 

 

Logi: Sýndum töluverða yfirburði

„Ég er mjög ánægður með leikinn í heild sinni. Við sýndum töluverða yfirburði með færin sem við fengum fannst mér, en vorum sem fyrr ekki að nýta þau nægilega vel,"

„Það var svolítil hætta þarna þegar þeir minnka muninn og maður var ekki beint rólegur en þetta gekk eftir. Ég er heilt yfir mjög ánægður að hafa náð í þrjú stig á erfiðum útivelli," sagði Logi.

„Við erum ánægðir með okkar byrjun á tímabilinu. Við hefðum að sjálfsögðu viljað vera með fleiri stig en þetta er bara nokkuð ásættanlegt," sagði Logi Ólafsson, þjálfari Stjörnunnar í leikslok.

Þórður: Þurfum að fara í Frostaskjól og vinna

„Þetta var bara slakt hjá okkur, það er ekkert flókið. Mér fannst menn þó gera vel að gefast ekki upp og komast aftur inn í leikinn í restina en það var ekki nóg," sagði Þórður.

„Við áttum ekki mörg svör við Stjörnumönnum í þessum leik. Þeir stjórnuðu stærstum hluta leiksins, við áttum þó nokkra ágætis spretti en þetta gekk bara ekki upp í dag,"

„Staðan okkar er alltaf að verða alvarlegri og alvarlegri ef við ætlum ekki að fara að vinna okkar leiki. Við eigum erfiðan leik í Frostaskjóli í næstu umferð og við verðum bara að fara þangað og gjöra svo vel og vinna," sagði Þórður Þórðarson, þjálfari Skagamanna í leikslok.

Halldór Orri: Virkilega sterkur sigur

„Þetta var virkilega sterkur sigur hjá okkur. Það er alltaf gaman að koma upp á Skaga og taka þrjú stig. Mér fannst við byrja leikinn betur og stjórnuðum við fyrri hálfleiknum. Það var svekkjandi að ná ekki að skora í fyrri hálfleiknum en við héldum okkar skipulagi og þetta gekk á endanum," sagði Halldór Orri.

„Við getum ekki verið annað en sáttir með stöðu okkar í deildinni. Við hefðum viljað klára heimaleikinn á móti Val, það voru nokkuð svekkjandi úrslit en annars lítur þetta vel út," sagði Halldór Orri Björnsson, leikmaður Stjörnunnar í leikslok.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×