Íslenski boltinn

Umfjöllun og viðtöl: Þór - Stjarnan 3-3 | Stjarnan vann í vító

Ólafur Tómasson á Þórsvelli skrifar

Markaveisla var uppskriftin þegar Stjarnan sló Þór út í 32-liða úrslitum Borgunarbikars karla í knattspyrnu eftir vítaspyrnukeppni. Jafnt var 2-2 að loknum venjulegum leiktíma og 3-3 í lok framlengingar.

Fyrri hálfleikurinn var líflegur, hraður og fjörugur. Heimamenn byrjuðu betur en það voru þó gestirnir sem skoruðu fyrsta mark leiksins og þar var á ferð Halldór Orri Björnsson á 23. mínútu en það var Veigar Páll sem átti stoðsendinguna.

Stjörnumenn voru þó ekki lengi yfir því Jóhann Helgi Hannesson jafnaði fyrir Þór aðeins fjórum mínútum seinna eftir klaufagang í varnarleik Stjörnumanna. Þetta reyndust einu mörkin í annars líflegum fyrri hálfleik.

Seinni hálfleikurinn fór nokkuð rólegra af stað en á 60. mínútu kom Baldvin Sturluson Stjörnumönnum aftur yfir með skoti úr teignum sem virtist fara nokkuð auðveldlega framhjá Rajkovic í marki Þórs.

Eftir markið dó leikurinn algjörlega og í raun gerðist afar lítið sem ekkert þangað til á 92. mínútu þegar Jóhann Helgi Hannesson jafnaði metin fyrir Þór eftir stoðsendingu frá Chuck Chijindu.

Eftir bragðdaufan seinni hálfleik tók við framlenging sem var vægast sagt lífleg, opin og að mestu laus við varnarleik. Stjörnumenn komust aftur yfir á 96. mínútu þegar hann skoraði sitt fyrsta mark á tímabilinu. Tryggvi Sveinn Bjarnason skallaði langa sendingu áfram á Veigar sem lék skemmtilega á varnarmenn Þórs og skilaði boltanum í netið.

Heimamenn voru þó ekki á því að gefast upp, lögðu enn meiri kraft í sóknarleik sinn sem opnaði leikinn algjörlega upp á gátt. Það var svo á 116. mínútu þegar Hörður Árnason gerðist sekur um afar klaufaleg vinnubrögð þegar hann hnoðaði niður Svein Elías Jónsson við markteigshornið. Gunnar Jarl Jónsson hikaði ekki, dæmdi víti og gaf Herði rauða spjaldið. Jóhann Þórhallson mætti á punktinn og skilaði boltanum örugglega í netið.

Mörkin voru ekki fleiri í venjulegum leiktíma og endaði leikurinn því í vítaspyrnukeppni og svo bráðabana þar sem Baldvin Sturluson skoraði síðasta markið og tryggði Stjörnumönnum sæti í 16 liða úrslitum Borgunarbikars karla.

Jóhann Helgi: Stoltur af því að vera Þórsari

Jóhann Helgi Hannesson, framherji Þórs, var ánægður með sína menn að hafa þrívegis komið tilbaka eftir að hafa lent undir.

„Þetta var frábær karakter og við sýndum það að Þórshjartað er enn þá til staðar. Við komum til baka þrisvar sinnum í leiknum og hefðum getað klárað þetta í lokin"

„Ég er bara stoltur af liðinu mínu og því að vera Þórsari í dag."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×