Innlent

Segir kafara hafa vitað af reglum svæðisins

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Frá vettvangi við Silfru í gær.
Frá vettvangi við Silfru í gær. Mynd/Friðrik

„Þessi maður má þakka fyrir að vera á lífi,“ segir Ólafur Örn Haraldsson, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, um slys sem varð í þjóðgarðinum í gær.

Norðmaður var hætt kominn þegar hann missti meðvitund við köfun í Silfru og sökk til botns. Honum var komið til bjargar en afþakkaði frekari aðstoð þegar sjúkraflutningamenn komu á staðinn.

„Hann er þarna einn síns liðs, að vísu með fylgdarkonu en hún var ekki í köfun. Það verður honum til lífs að þarna eru tveir menn að kafa, mjög öflugir fagmenn frá Ísafirði, annar þeirra lögreglumaður og hinn vélstjóri, vörpulegir Íslendingar. Þeir verða varir við hann þegar hann sekkur og draga hann upp helbláan og meðvitundarlausan og hefja strax lífgunartilraunir. Hann væri ekki hérna megin móðunnar ef ekki hefði verið fyrir þá.“

Ólafur segir ljóst að maðurinn hafi þverbrotið reglur og sýnt af sér gáleysi.

„Fyrir nokkrum mánuðum voru settar stífar og skýrar reglur um köfun í Silfru. Við setjum til dæmis þau skilyrði að menn tilkynni sig í þjónustumiðstöðinni okkar eða á netinu áður en þeir kafa, og greiði 1.000 krónur fyrir köfunina. Ein af þessum reglum er síðan sú að það má enginn kafa einn. Þessar reglur eru aðgengilegar á heimasíðunni okkar en líka á skiltum við bílastæðið og þar sem farið er niður stigann í Silfru. Ég heyrði í gær að maðurinn hefði verið leiddur að þessum skiltum og bent á þetta þannig að hann fór vitandi vits í gjána.“

Aðspurður hvort einhver eftirmál verði af atvikinu segir Ólafur það vera í skoðun.

„Við erum að meta það núna ásamt Siglingastofnun og lögreglu hvort gripið verði til aðgerða gegn manninum. Það hafa orðið mjög alvarleg slys þarna, núna síðast fyrir um hálfu ári síðan, þannig að við hljótum að taka þetta mjög föstum tökum. Við ætlumst til að þessum reglum verði framfylgt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×