Innlent

Lárentsínus fær að verja Steinþór

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Lárentsínus Kristjánsson skipaður verjandi Steinþórs Gunnarssonar.
Lárentsínus Kristjánsson skipaður verjandi Steinþórs Gunnarssonar. Mynd/ GVA.
Hæstiréttur hefur fallist á að Lárentsínus Kristjánsson hæstaréttarlögmaður verði skipaður verjandi Steinþórs Gunnarssonar í Landsbankamálinu. Steinþór er ásamt fimm öðrum ákærður fyrir markaðsmisnotkun. Við þingfestingu málsins fyrir héraði krafðist saksóknari þess að Lárentsínus yrði ekki skipaður verjandi Steinþórs. Ástæðan væri sú að Lárentsínus hefði um tíma starfað í skilanefnd og sem formaður skilanefndar Landsbankans eftir að Fjármálaeftirlitið tók stjórn bankans yfir.

Hæstiréttur telur að ekki hafi myndast hagsmunatengsl hjá Lárentsínusi við bankann. Þá bendir Hæstiréttur á að Lárentsínus hafi engin tengsl við sakarefni málsins og sérstakur saksóknari hafi upplýst að ekki sé fyrirhugað að hann verði kvaddur til að gefa skýrslu sem vitni í málinu. Óumdeilt sé að skilanefndin hafi haft milligöngu um gagnaöflun vegna rannsóknar Fjármálaeftirlitsins og síðar Sérstaks saksóknara, sem leiddi til ákæru í málinu. Að mati dómsins sé þó ekkert komið fram um þau samskipti sem bendi til þess að lögmaðurinn muni ekki rækja skyldur sínar af kostgæfni og lögum samkvæmt.

Hæstiréttur segir því að ekki verði fallist á það með ákæruvaldinu að vegna stöðu Lárentsínusar í skilanefnd bankans teljist hann svo viðriðinn málið að hætta sé á því að hann geti ekki gætt hagsmuna ákærða sem skyldi. Þá sé það meginregla sakamálaréttarfars að sakborningur eigi rétt á því að njóta aðstoðar verjanda að eigin vali.

Uppfært:

Fram kom í frétt Vísis að Steinþór Gunnarsson væri ákærður fyrir markaðsmisnotkun og umboðssvik. Hið rétta er að Steinþór er einungis ákærður fyrir markaðsmisnotkun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×