Innlent

Langt komnir með að ná utan um stjórnarsáttmála

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Stjórnarmyndunarviðræður Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks héldu áfram í dag. Formenn flokkanna fengu kynningu frá fjármálaráðuneytinu um stöðu ríkisfjármála og Bjarni Benediktsson segir þá langt komna með að ná utan um stjórnarsáttmála.

„Við höfum notað þennan dag áfram að hluta til að afla gagna og upplýsinga og fengið kynningar, meðal annars um stöðu ríkisfjármála,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokks, í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Eitthvað hægt að segja eftir það, eitthvað sem kemur á óvart?

„Ég held að það sé best að tjá sig sem minnst um það í bili, við erum áfram að skoða stöðu þessara mála.“

Viðræðum verður fram haldið um helgina og Sigmundur segir ómögulegt að segja til um henær niðurstaða fæst.

„Ég held við ættum frekar að gera ráð fyrir heldur fleiri dögum en færri. Þetta mun taka eitthvað fram í næstu viku en oft og tíðum tekur úrvinnsla lengri tíma en menn gera ráð fyrir og því er rétt að hafa varann á með tímasetningar.“

Sigmundur segir að menn séu ekkert farnir að skipta með sér verkum í ríkisstjórn og þá hefur engin ákvörðun verið tekin um hvenær aðrir flokksmenn verða kallaðir að borðinu.

„Við erum komnir nokkuð langt með svona að ná utan um stjórnarsáttmálann í heild sinni en það á enn eftir að útkljá nokkur atriði,“ segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.

Hefur steitt á einhverju einhvers staðar?

„Ég myndi ekki segja að það hafi steitt á neinu, en það eru stórir málaflokkar, eins og skuldamálin sem við eigum eftir að vinna okkur í gegnum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×