Innlent

Bjartsýnn á að ný ríkisstjórn verði kynnt í þessari viku

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins er bjartsýnn á að það takist að mynda ríkisstjórn á næstu dögum. Hann vill lítið tjá sig um hvernig samið verði um einstök málefni líkt og skuldamál heimilanna.

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins kom saman í Valhöll í dag þar sem formaðurinn fór yfir hvernig stjórnarmyndunarviðræðurnar ganga. Bjarni er bjartsýnn á að ný ríkisstjórn geti orðið að veruleika á næstu dögum.

„Okkur hefur orðið mjög ágengt á þessari viku sem að liðin er frá því að formlegar viðræður hófust. Ég er svona farinn að sjá fyrir endann á samræðum flokkanna um málefnin og þá taka við svona önnur atriði, svona við gætum kallað það praktískari atriði í samstarfinu, ég ætla ekki að lofa neinum dagsetningum en miðað við það hvernig gengur undanfarna viku þá er bjartsýnn á að dagarnir framundan í þessari viku muni nýtast okkur mjög vel til þess að klára þetta," segir Bjarni.

Bjarni segir að skuldamál heimilanna hafi verið rædd á fundum sínum og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar formanns Framsóknarflokksins um helgina. Ágætar líkur séu á að flokkarnir geti náð saman um þau. Hann vill þó ekkert segja um hvaða leiðir sé líklegt að ákveðið verði að fara.

„Nú verðum við að leyfa flokkunum tveimur að ná endanlega saman um niðurstöðu og það er ekki orðið tímabært að útala sig um hvað verður gert eða hvenær fyrr en menn hafa klárað vinnuna."

Vilji er meðal sjálfstæðismanna til að breyta veiðileyfagjaldinu strax á þinginu sem kemur saman í sumar samkvæmt heimildum fréttastofu. Þá hafa þeir Bjarni og Sigmundur rætt fjölgun ráðherra og aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið. Bjarni segir þó ekki tímabært að tjá sig þau mál strax. Þá segir Bjarni skattamál hafa verið rædd í viðræðunum og komið verði inn á þau í stjórnarsáttmála flokkanna.

„Báðir flokkar leggja mikla áherslu á að einfalda skattkerfið og svona greiða fyrir með skattalegum aðgerðum framkvæmdum og framförum í landinu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×