Innlent

Vilja lax í lækinn en enga kópa í Kópavog

Kópavogslækur á fallegum degi
Kópavogslækur á fallegum degi
„Þetta er nú frekar hugsað til þess að bæta ímynd læksins, en það er ekki útilokað að leyfa börnum að veiða þarna í framtíðinni,“ segir Ómar Stefánsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í Kópavogi, en tillaga hans um að kannað verði hvort það sé mögulegt að sleppa eldisfiski í Kópavogslæk var samþykkt á fundi bæjarráðsins fyrir helgi.

Kópavogslækurinn hefur lengi haft slæma ímynd og var stundum kallaður skítalækurinn í gamla daga þegar skólp lak út í vatnið. Það er þó ekki þannig í dag, að sögn Ómars sem vill meina að lækurinn sé tandurhreinn og að þetta sé kjörið tækifæri til þess að sýna fram á það.

Það er Náttúrufræðistofnun Kópavogs sem sér um að kanna hvort það sé óhætt að sleppa seiðum í Kópavogslækinn, en tegundirnar sem eru til skoðunar eru bleikja,- urriði og jafnvel laxaseiði.

Ómar sér fyrir sér að eldisfiski verði sleppt í lækinn og er þá að mörgu að huga, svo sem áhrif þess á annað dýralíf í læknum og fleira.

„Ég vona að þetta gerist í sumar, “ segir Ómar spurður hvenær þetta gæti orðið að veruleika. Hann segir að ef þetta verði ekki að veruleika nú í sumar verði lagt allt kapp á að þetta verði að veruleika næsta sumar, sé ekkert til fyrirstöðu að sleppa eldisfisknum það er að segja.

Hjálmar Hjálmarsson, oddviti Næst besta flokksins í Kópavogi, lagði svo fram tillögu í kjölfarið um að kanna kosti þess og galla að sleppa selkópum í Kópavoginn. Bæjarráðið felldi tillöguna með einu atkvæði, en fjórir sátu hjá.

Ómar vildi ekki tjá sig um tillögu Hjálmars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×