Innlent

1,2 milljarðar króna farið til stjórnmálaflokka

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Flokkar sem eiga sæti á Alþingi hafa fengið greidda samtals 1,2 milljarða króna.
Flokkar sem eiga sæti á Alþingi hafa fengið greidda samtals 1,2 milljarða króna. Mynd/ GVA.
Alls hafa 1,2 milljarðar króna farið til stjórnmálasamtaka á árunum 2010 -2013. Samfylkingin hefur fengið mest allra flokka eða 375 milljónir króna og Sjálfstæðisflokkurinn næstmest eða rúmar 298 milljónir króna. Það er í samræmi við stærð flokkanna, eins og segir á vef fjármálaráðuneytisins.

Greiðslur til stjórnmálasamtaka eru samkvæmt ákvörðun fjárlaga hverju sinni. Þetta framlag fer til stjórnmálasamtaka sem hafa fengið að minnsta kosti einn mann kjörinn á þing eða náð 2,5% atkvæða. Það framlag skiptist hlutfallslega milli flokka eftir atkvæðamagni í næstliðnum kosningum.

Í töflunni hér að ofan má sjá hvernig greiðslur frá alþingiskosningum hafa skipst á stjórmálasamtök. Greiðsla fer fram í byrjun árs.
Til viðbótar þessum greiðslum er árlegt framlag til þingflokka, einnig samkvæmt ákvörðun fjárlaga hverju sinni. Á árinu 2010 var bætt inn í lögin heimildarákvæði um að stjórnmálasamtök sem bjóði fram í öllum kjördæmum í kosningum til Alþingis geti að loknum kosningum sótt um sérstakan fjárstyrk úr ríkissjóði til að mæta útlögðum kostnaði við kosningabaráttu, að hámarki 3 milljónir króna. Á þetta mun reyna nú í fyrsta sinn í kjölfar nýliðinna alþingiskosninga og mun innanríkisráðuneytið setja verklagsreglur og hafa yfirumsjón með þessum styrkjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×