Innlent

Ætla að funda í Reykjavík í dag

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson ætla að funda í Reykjavík í dag.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson ætla að funda í Reykjavík í dag. Mynd/ Daníel.
Stjórnarmyndunarviðræður formanna Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins hefjast að nú í hádeginu. Viðræðurnar eru sagðar ganga vel og gert er ráð fyrir að skýr mynd komist á þær öðru hvoru megin við næstu helgi.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins og Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðismanna hafa undanfarna tvo daga fundað ásamt aðstoðarmönnum sínum í sumarbústað við Þingvallavatn. Í gær funduðu þeir fram á kvöld og að því loknu sagði Bjarni í samtali við Vísi að áherslan hingað til hafi verið á þau ár sem séu framundan og hvaða ráðstafandi sé nauðsynlegt að gera til að örva hagkerfið og loka fjárlagagatinu. Bjarni sagði að enn sé ekki farið að ræða útfærslur einstakra mála, á borð við skuldamál heimilanna en hann segist vongóður um að þeim takist að ná saman í þeim málaflokki sem öðrum. Röðun í ráðherrastóla og skipting málaflokka mun heldur ekki hafa verið rædd enn sem komið er og þá hafa aðrir flokksmenn ekki verið kallaðir að samningaborðinu.

Eftir að hafa eytt síðustu tveimur dögum í sveitakyrrðinni við Þingvallavatn ákváðu formennirnir að funda í dag í Alþingishúsinu og er sá fundur að hefjast í þessum töluðum orðum. Hvað varðar tímaramma á viðræðunum segir Bjarni að þeir hafi ekki sett sér ströng markmið í því sambandi en hann segir meta það svo að öðru hvoru megin við næstu helgi ætti að vera hægt að fá skýra mynd á niðurstöðuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×