Innlent

Kostnaður sérfróðra meðdómsmanna stóraukist

Dómstólaráð hefur miklar áhyggjur af kröfu um hagræðingu á sama tíma og hlutfall launa og húsnæðiskostnaðar af heildar rekstrarútgjöldum er komið upp í 92%, sem Dómstólaráðið segir að geti vart talist ásættanlegt. Þetta kemur fram í ársskýrslu Dómstólaráðsins fyrir árið 2012 þar sem fram kemur að árið hafi að miklu leyti einkennst af rekstri dómsmála tengdum efnahagshruninu og álagi þeim fylgjandi.

Ein birtingamynd þess er stóraukin kostnaður vegna kostnaðar sérfróðra meðdómsmanna sem hefur vaxið ár frá ári og hefur aldrei verið hærri en árið 2012. Þegar deilt er um staðreyndir sem eru bornar fram sem málsástæður og dómari telur þurfa sérkunnáttu í dóm til að leysa úr getur hann kvatt til tvo meðdómsmenn sem hafa slíka sérkunnáttu. Eins ef mál er umfangsmikið eða sakarefni mjög mikilvægt frá almennu sjónarmiði er mögulegt að kveðja til sérfróðan meðdómsmann.

Kostnaður vegna sérfróðra meðdómsmanna við héraðsdómstólana nam 61 milljón króna á árinu 2012 sem er 4,5% af heildarútgjöldum dómstólanna. Árið 2011 var þessi kostnaður 48  milljónir. Árið 2008 var þessi kostnaður 36 milljónir króna.

Í formála ársskýrslu Dómstólaráðs segir: „Í ljósi þess háa hlutfalls sem launagreiðslur og fastur húsnæðiskostnaður eru af heildarútgjöldum héraðsdómstólanna er lítið sem ekkert svigrúm eftir til þess að sinna nauðsynlegum þáttum í innri starfsemi héraðsdómstólanna.

Er það ekki síst áhyggjuefni í ljósi þess sérstaka ástands sem ríkt hefur í starfsumhverfi héraðsdómstólanna á liðnum árum og þeirra auknu krafna sem gerðar hafa verið til dómstólanna á sama tíma.“

Skýrsluna má finna hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×