Innlent

„Besta leiðin til að draga úr ungbarnadauða er að auka jafnrétti kynjanna“

Karen Kjartansdóttir skrifar
Besta leiðin til að draga úr ungbarnadauða er að auka jafnrétti kynjanna. Þetta segir Þóra Arnórsdóttir fjölmiðlakona sem í dag kynnti nýja skýrslu Barnaheilla um stöðu mæðra í heiminum.

Á hverju ári deyr meira en ein milljón barna innan við sólarhring eftir að þau koma í heiminn. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í árlegri skýrslu alþjóðasamtaka Barnaheilla - Save the Children um stöðu mæðra, sem birt er í dag. Þar segir einnig að þótt unnið hafi verið að því að bæta stöðuna gangi breytingarnar hægt jafnvel þótt hægt væri að koma í veg fyrir 75 prósent ungbarnadauða með ódýrum aðferðum.

Nokkur dæmi um slíkt eru tekin í skýrslunni:

· Sterasprauta sem hjálpar lungum fyrirbura að þroskast kostar tæplega sextíu krónur

· Sótthreinsandi efni á naflastreng og nafla kostar aðeins sextán krónur

· Sýklalyf gegn sýkingum kosta frá tuttugu til 235 krónum

· Tæki fyrir öndunarstuðning kosta frá sextíu til sjö hundruð krónum

Norðurlöndin skipa fimm efstu sæti listans, best þykir að vera móðir í Finnlandi. Ísland er í fjórða sæti en var í fyrra í því efsta. Ástæðan mun þó ekki vera sú að staðan hafi versnað á Íslandi heldur hafi aðrar aðferðir verið notaðar við mælinguna að þessu sinni.

Ástralía er eina landið utan Evrópu sem kemst í eitt af tíu efstu sætunum.

Afríkulönd sunnan Sahara eyðimerkurinnar koma verst út úr könnuninni. Verst er að vera móðir í Kongó. Landið er í 176. sæti listans, en í næstneðsta sætinu er Sómalía.

„Það er litið til fimm þátta þegar verið er að meta hvar sé best að vera móðir og þar með best að vera barn. Það eru lífslíkur barna og mæðra, það er menntun, það er jafnrétti og það eru tekjur. Þar sem þessir hlutir eru í lagi, það er að segja mestu leyti í Evrópu og allra best á Norðurlöndum, þar er gott að vera móðir og gott að vera barn og þar er engin offjölgun síður en svo, það er frekar kvartað yfir því að konur eignist of fá börn," segir Þóra Arnórdóttir fjölmiðlakona sem kynnti skýrsluna í dag.

Þannig að þegar dregur úr barnadauða fækkar fæðingum því þá geta foreldrar treyst því að börn þeirra komist til manns.

Þá rifjaði Þóra upp að skammt er liðið frá því að sjálfsagt þótti að íslenskir foreldrar misstu börn staðan sé önnur nú og Íslendingar ættu að gera sitt besta til að bæta stöðunna annarsstaðar.

En hver er lykillinn að því að bæta stöðu barna?

„Ég held að það sé einfaldlega aukið kynjajafnrétti. Ef staða mæðra er betri þá er staða barna betri, þar með er staða feðra betri líka vegna þess að staða fjölskyldunnar er betri Þetta helst allt í hendur og það er það sem við þurfum að einbeita okkur að, það er að breyta samfélagsgerðinni. Það er segja að einbeita okkur að því auka jafnrétti í heiminum."

Hér má lesa skýrsluna á PDF-formi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×