Innlent

„Held að Bjarni og Sigmundur séu skynsamir menn“

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Jón Steindór Valdimarsson, formaður samtakanna.
Jón Steindór Valdimarsson, formaður samtakanna.
Samtökin Já Ísland hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þeir skora á komandi ríkisstjórn að klára aðildarviðræður við Evrópusambandið.

Er hvatt til þess að samningaferli Íslands verði „leitt til farsælla lykta og samningur lagður fyrir þjóðina til samþykktar eða synjunar,“ eins og segir í yfirlýsingunni. Jón Steindór Valdimarsson, formaður samtakanna, segist hafa áhyggjur af málinu í höndum nýrrar ríkisttjórnar.

„Við höfum satt að segja áhyggjur af því hvernig fer með þetta á komandi kjörtímabili. Þess vegna viljum við hvetja þá sem eru að koma sér saman um nýja ríkisstjórn að íhuga þessi mál vel,“ segir Jón og segir aðild að ESB gæti gagnast við úrlausn margra þeirra mála sem ríkisstjórnin mun þurfa að kljást við.

„Í aðdraganda kosninganna var rætt að það væri rétt að hætta þessu og halda ekki áfram, en við teljum skynsamlegra að klára þetta og sjá hver niðurstaðan verður frekar en að loka þessum dyrum.“

Aðspurður hvort honum finnist eitthvað benda til þess að viðræðurnar yrðu kláraðar í stjórnartíð Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks segir Jón það alveg geta farið svo.

„Ég held að þeir Bjarni og Sigmundur séu skynsamir menn, og þegar þeir setjast yfir málið og vega og meta stöðuna ættu þeir alveg að geta komist á þá skoðun að best sé að klára dæmið. Þegar menn setjast við stjórnarborðið og þurfa að axla þá ábyrgð sem því fylgir og horfa langt fram í tímann fyrir hönd þjóðarinnar þá kannski hugsa menn aðeins öðruvísi en í hita kosningabaráttunnar.“

En telur Jón yfirlýsingar formannanna í kosningabaráttunni hafa verið atkvæðaveiðar?

„Kosningabarátta snýst auðvitað um það að afla sér atkvæða, en hins vegar er rétt að halda því til haga að það er góður meirihluti þjóðarinnar sem vill klára viðræðurnar, bæði í röðum þeirra sem vilja aðild og líka þeirra sem eru andvígir. Ég held að flestir vilji fá að sjá um hvað málið snýst. Þegar það liggur fyrir hafa menn þá tækifæri til að segja já eða nei.“

Yfirlýsingin frá Já Ísland:

Skorað er á komandi ríkisstjórn að leiða samningaferli Íslands um aðild að Evrópusambandinu til farsælla lykta, klára yfirstandandi viðræður og leggja samning fyrir þjóðina til samþykktar eða synjunar. Skoðanakannanir á liðnum mánuðum sýna að mikill meirihluti þjóðarinnar vilji klára viðræðurnar eða rúm 60% þeirra sem afstöðu tóku í könnunum Gallup* og Félagsvísindastofnunar**.

 

Skuldir, vextir, verðbólga, vöruverð, staða ríkissjóðs, gjaldmiðill og stöðugleiki eru mál sem mjög voru til umræðu fyrir kosningar til Alþingis. Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn vinna nú að myndun nýrrar ríkisstjórnar og þeirra bíður því það verkefni að taka á þessum málum og finna á þeim farsæla lausn.

 

Mikilvægt er að loka engum dyrum á komandi kjörtímabili sem geta varðað leið að úrlausn til langrar framtíðar. Aðild að Evrópusambandinu er ein vænlegra leiða sem gæti leitt til nýrra tækifæra til þess að takast á við margt af því sem leysa þarf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×