Innlent

Hefur ekki játað sök

Gissur Sigurðsson skrifar
Maðurinn var úrskurðaður í gæsluvarðhald í gær.
Maðurinn var úrskurðaður í gæsluvarðhald í gær. Mynd/ austurfrétt - gunnar
Karlmaður á þrítugsaldri sem var handtekinn á Egilsstöðum í gærmorgun grunaður um að hafa orðið manni um sextugt að bana í fyrrinótt, hefur ekki játað á sig verknaðinn. Lík hins látna verður krufið í dag.

Hinn grunaði var seint í gærkvöldi úrskurðaður í allt að tveggja vikna gærsluvarðhald í Héraðsdómi Austurlands, en formlegar yfirheyrslur yfir honum hófust ekki fyrr en á níunda tímanum í gærkvöldi. Dómari féllst á þá kröfu lögreglunnar að hann skyldi sæta svonefndum takmörkunum í varðhaldinu, sem þýðir að hann má ekki hafa samband við neinn nema verjanda sinn, og ekki fylgjast með fréttum. Verjandinn mótmælti þessu, en dómari tók mótmælin ekki til greina.

Sérfræðingar frá rannsóknadeild  lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu aðstoða lögregluna eystra við rannsókn málsins. Jónas Wilhelmsson yfirlögregluþjónn á Eskifirði sagði nú laust fyrir hádegi að rannsókn málsins gengi vel  og vettvangsrannsókn væri langt komin, en gat ekki tjáð sig nánar að sinni. Óstaðfestar fregnir herma að hinn látni hafi látist af hnífstungu.-




Fleiri fréttir

Sjá meira


×