Innlent

Segir engar líkur á að olían fari í drykkjarvatnið

Frá hreinsun á vettvangi.
Frá hreinsun á vettvangi.
„Ég held að ég geti fullyrt að það eru engar líkur að þetta fari í grunnvatnið,“ segir Björn Ólafsson, einn af forsvarsmönnum fyrirtækinsins Inside Volcano sem sér um Þríhnúkagíg.

Ker á vegum fyrirtækisins féll úr metershæð þegar þyrla var að hífa það upp, en kerið var fullt af olíu. Kerið féll niður og sprakk og olían dreifðist um plan sem er nokkuð fyrir neðan Bláfjallaskálann, en ekki á bílaplani við skálann, eins og fram kom í fyrstu fréttum.

Mengunarslys á svæðinu eru litin alvarlegum augum, ekki síst vegna þess að undir er grunnvatnsstraumur sem liggur í vatnsból á höfuðborgarsvæðinu. Svæðið allt er skilgreint sem vatnsverndarsvæði.

Fyrirtækið var að flytja 600 lítra af olíu upp að Þríhnúkagíg sem átti að nota í ljósavélar sem notaðar eru við að lýsa upp hellinn, sem var nefndur eitt af náttúruundrum sem fólk þarf að upplifa áður en ævin er öll að mati bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar CNN.

Björn segir að fyrirtækið flytji tvívegis mikið magn af olíu upp að gígnum yfir sumartímann. Þetta var fyrri ferðin. Fljúga þarf með olíuna í hvert skiptið.

Björn segir að fyrirtæki þeirra þurfi að standa straum af kostnaði sem gæti hlotist af vegna hreinsunarstarfanna. Sjálfur vonast hann til þess að það taki ekki nema um tvær klukkustundir að moka jarðveginn upp sem verður svo fargað í bænum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×