Innlent

Ölvuð hestakona beit lögreglumann

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Atvikið átti sér stað á Olísstöð í Norðlingaholti.
Atvikið átti sér stað á Olísstöð í Norðlingaholti. Mynd/ GVA.
Óhætt er að segja að erill hafi verið hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Laust fyrir klukkan eitt í nótt var óskað eftir aðstoð lögreglu við verslun Olís við Suðurlandsveg í Norðlingaholti. Þar voru ölvaðar hestakonur á ferð. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var ein konan einnig undir áhrifum lyfja og því ekki í ástandi til að vera á hestbaki. Þá mun hún hafa brugðist afar illa við afskiptum lögreglu og beit og sparkaði í lögreglumann. Hún var á endanum handtekin og vistuð í fangageymslu lögreglu. Hún verður yfirheyrð í dag þegar af henni verður runnið.

Á öðrum tímanum í nótt var tilkynnt um eld sem logaði í ruslageymslu í fjölbýlishúsi við Kristnibraut. Íbúi í húsinu náði að slökkva eldinn með tveimur handslökkvitækjum. Slökkvilið kom síðar á vettvang til að ganga úr skugga um að frekar hætta væri ekki á ferðum. Talsverður skemmdir urðu á geymslunni. Eldsupptök eru ókunn.

Þá slasaðist karlmaður laust fyrir klukkan þrjú í nótt þegar hann datt niður stiga á skemmtistað í miðborginni. Hann var með verki í vinstri síður og handlegg og var fluttur á með sjúkrabíl á slysadeild til aðhlynningar. Tveimur tímum seinna eða rétt fyrir klukkan fimm hrasaði kona skammt frá Þjóðleikhúsinu. Var hún að sama skapi flutt á slysadeild.

Tveir ökurmenn voru teknir grunaður um ölvun við akstur en þeim var sleppt að lokinni sýnatökur. Eitthvað var um minniháttar pústra milli manna í borginni í nótt.

__________________

Viðbót klukkan 15:45

Konan sem lögreglan grunar að hafi verið undir áhrifum lyfja segir í samtali við Vísi að svo hafi ekki verið. Hún hafi ekki verið undir áhrifum lyfja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×