Innlent

Of margir skólar starfandi á Íslandi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Áhugasamir grunnskólanemendur að störfum.
Áhugasamir grunnskólanemendur að störfum. Mynd/ Vilhelm.
Mikil tækifæri eru til að hagræða og bæta skólakerfið á Íslandi, að mati verkefnastjórnar Samráðsvettvangs um aukna hagsæld. Verkefnastjórnin fundaði í gær og kynnti eftir það tillögur. Þar segir að þrátt fyrir há fjárframlög til menntamála standi Íslendingar höllum fæti gagnvart nágrannalöndum á lykilmælikvörðum. Íslendingar verji til dæmis mest Norðurlandanna til menntamála miðað við landsframleiðslu en hlutfall þeirra sem útskrifast úr framhaldsskóla með minna en tveggja ára töf er aftur á móti lægst.

Verkefnastjórnin segir að útgjöld til skólastiganna miðað við nágrannalönd bendi til að tækifæri til framleiðniaukningar séu mest á grunnskólastigi. Há fjárframlög til grunnskólastigsins fari að hluta í að fjármagna óhagkvæmar rekstrareiningar. Af 173 grunnskólum á landinu séu 56 skólar með færri en 100 nemendur. Fámennir skólar séu óhagkvæmir í rekstri og auki þörf fyrir önnur störf en kennslustörf.

En þótt tækifæri til framleiðniaukningar séu mest í grunnskólakerfinu að mati verkefnastjórnarinnar telur hún líka tækifæri til hagræðingar á öðrum stigum. Þannig vill verkefnastjórnin til dæmis fækka framhaldsskólum á Íslandi úr 33 í átta.

Fjórði fundur Samráðsvettvangsins verður haldinn þann 22. maí næstkomandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×