Innlent

Halda spilunum þétt að sér

Karen Kjartansdóttir skrifar
Formenn væntanlegra stjórnarflokka halda spilunum enn fast að sér og hleypa öðrum þingmönnum flokkanna ekki að stjórnarmyndunarviðræðunum. Fimm dagar eru frá því að forseti fékk formanni Framsóknar umboð til stjórnarmyndunar. 

Allur gangur hefur verið á því hvernig stjórnarmyndunarviðræðum hefur verið hagað í gegnum tíðina, að sögn Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðing sem mikið hefur rannsakað stjórnarmyndanir á Íslandi. Venjan sé samt sú að viðræðunefndir hafi verið skipaðar fljótlega eftir að viðræður hefist en ekkert slíkt virðist vera uppi á tengingnum nú. 

Hann segir ýmsar ástæður geta legið að baki ákvörðun formanna um að halda öllum þráðum í hendi sér án þess að hleypa öðrum flokksmönnum að stjórnarmyndunarviðræðum.

„Það eru kostir og gallar við það. Það er kannski lýðræðislegra en ferlið getur orðið þunglamalegra og staðan orðin sú að það verða eiga sér samningaviðræður innan hvers flokks og svo milli flokkanna," segir Guðni. Hann segir að hugsanlega sé það þægilegra fyrir leiðtogana að leggja hinar breiðu línur sjálfir.

„Svo er alltaf inn í myndinni innanflokkspólitík. Við getum séð fyrir okkur að hefði Bjarni Benediktsson kosið að hafa sinn dygga bandamann Illuga Gunnarsson með á Þingvöllum þá hefði hann eiginlega líka þurft að hafa Hönnu Birnu Kristjánsdóttur með og þá hefði sú staða getað komið upp að sjálfstæðismenn hefðu getað þurft að verja fullmiklum tíma í að semja sín á milli og koma svo skilaboðum milli framsóknarmanna," segir Guðni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×