Innlent

Sigmundur ætlar að funda með öllum flokkum - skuldamál heimilanna forsenda samstarfs

Frá fundinum í hádeginu.
Frá fundinum í hádeginu. Mynd/Valgarður
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, veitti Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Framsóknarflokksins umboð til þess að hefja stjórnarmyndunarviðræður í hádeginu í dag. Engin tímamörk eru á viðræðunum. Ólafur Ragnar segir að þrennt hafi komið til þess að hann tók þessa ákvörðun.

Ákvörðunin væri byggð á því að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn væru stærstu flokkarnir og hefðu sama fjölda þingmanna. Í öðru lagi hafi fylgisaukning Framsóknarflokksins verið mjög afgerandi og á vissan hátt söguleg.

Og í þriðja lagi hafi viðhorf annarra formanna sem Ólafur Ragnar fundaði með í gær vegið þungt, en Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, sem og Birgitta Jónsdóttir, formaður Pírata, töldu að Sigmundur Davíð ætti að fá umboðið.

Sigmundur Davíð sagði á fundinum að hann myndi nú funda með formönnum allra flokka sem eiga menn inni á Alþingi en þær viðræður yrðu á þeim forsendum að bregðast yrði við skuldavanda heimilanna. Hann sagðist aftur á móti opin fyrir tillögum um útfærslur hugmyndarinnar. Þessi hugmynd sé þó forsenda samstarfsins.

Sigmundur Davíð mun svo upplýsa forsetann um gang mála í næstu viku.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×