Innlent

Ingólfur Júlíusson látinn

Ingólfur Júlíusson ljósmyndari
Ingólfur Júlíusson ljósmyndari
Fréttaljósmyndarinn og margmiðlunarhönnuðurinn Ingólfur Júlíusson lést á sjúkrahúsi aðfaranótt mánudags, eftir hetjulega baráttu við bráðahvítblæði.

Ingólfur fæddist 5. maí 1970 og ólst upp fyrstu árin í Syðra- Garðshorni í Svarfaðardal en síðan frá 5 ára aldri í Breiðholti. Hann var athafnasamur lestrarhestur á unglingsárunum, átti hesta og mótorhjól og spilaði í pönkhljómsveitum, Q4U meðal annarra.

Hann var sjálfmenntaður þúsundþjalasmiður og fékkst við ótalmargt, en starfaði við flesta fjölmiðla á Íslandi frá árinu 1996, fyrst sem umbrotsmaður á blöðum og tímaritum, bæði fastráðinn og sem verktaki, síðan sem tökumaður fréttamynda í sjónvarpi. Ingólfur fór snemma að taka myndir fyrir blöð og varð ljósmyndun um síðir meginstarf hans, enda var hann afbragðsgóður ljósmyndari.

Í nokkur ár starfaði hann sem ljósmyndari Reuters-fréttastofunnar á Íslandi og sjálfstætt frá árinu 2008. Myndir hans hafa farið um víða veröld og hann hlaut margvíslegar viðurkenningar, til dæmis var ein mynda hans meðal fréttamynda ársins hjá Reuters árið 2010 og árið 2011 var ein mynd hans valin sem ein af óvæntustu myndum ársins hjá tímaritinu Time.

Hann hélt nokkrar ljósmyndasýningar og tók þátt í samsýningum. Einna þekktastar eru myndir Ingólfs frá eldgosum og öskufalli síðustu ára, en listrænar myndir urðu meira áberandi á síðari árum.

Ingólfur fékkst við ýmislegt annað: myndbandagerð, tónlist, útskurð, fjallamennsku og sitthvað fleira, og árið 2011 tók hann myndir í bókina Ekki lita út fyrir, þar sem Eva Hauksdóttir skrifaði textann. Síðustu árin var hann mjög virkur með víkingafélaginu Einherjum og átti orðið gott safn af miðaldavopnum og verjum.

Ingólfur var kvæntur Monicu Haug og eiga þau tvær dætur, Hrafnhildi og Söru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×