Innlent

Stöðvuðu eftirlýstan mann - grunaður um stórfellt skartgriparán á Kýpur

Mennirnir voru stöðvaðir á Keflavíkurflugvelli.
Mennirnir voru stöðvaðir á Keflavíkurflugvelli.
Hæstiréttur Íslands stytti gæsluvarðhaldsúrskurð yfir meintum stórglæpamanni sem var handtekinn á Keflavíkurflugvelli í lok mars. Maðurinn kom ásamt tveimur félögum sínum til landsins skömmu fyrir páska en það vakti athygli tollvarða að mennirnir voru með sérstakan segul á sér sem er oft notaður til þess að gera þjófavarnir í verslunum óvirkar.

Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að maðurinn, sem er rúmenskur að uppruna, sé eftirlýstur af Interpol fyrir rán og líkamsárás á Kýpur á síðasta ári. Hann á að hafa brotist inn í skartgripaverslun í borginni Nikósíu og stolið þaðan skartgripum fyrir 32 milljónir króna.

Þá á hann í sömu borg að hafa ráðist á verslunarstjóra stórmarkaðar og gengið harkalega í skrokk á honum auk þess sem hann og félagi hans eiga að hafa rænt hann uppgjöri verslunarinnar, sem var um tvær og hálf milljón króna. Fórnarlambið var illa farið eftir ránið og þurfti að leggjast inn á sjúkrahús í kjölfarið.

Við meintum afbrotum liggur að hámarki lífstíðarfangelsi samkvæmt kýpverskum lögum. Stjórnvöld þar í landi hafa þegar óskað eftir að maðurinn verði framseldur. Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði manninn í gæsluvarðhald til 8. maí, en Hæstiréttur stytti þann tíma um viku, eða til 1. maí, eða á meðan framsalsmál hans er til meðferðar hjá íslenskum stjórnvöldum. Mennirnir hafa lítil sem engin tengsl við land og þjóð eftir því sem rannsakendur komast næst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×