Innlent

Lyfjakostnaður breytist hjá tugþúsundum manna

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Steingrímur Ari Arason.
Steingrímur Ari Arason.
Hluti þeirra 30 þúsund landsmanna sem fá lyf sín frítt í dag þurfa að greiða fyrir þau frá og með næsta mánuði. Á sama tíma lækkar lyfjakostnaður annarra um tugi þúsunda.

Nýtt greiðsluþáttökukerfi vegna kaupa á lyfjum tekur gildi frá og með 4. maí. Í dag fá um 30 þúsund manns lyf sín frítt. Sumir þeirra koma til með að greiða fyrir hluta þeirra frá og með næsta mánuði. Til að mynda þeir sem nota sykursýkis-, flogaveikis- og krabbameinslyf. Á meðan mun lyfjakostnaður annarra lækka.

Til að fá einhverja hugmynd um áhrif kerfsins höfum við tvö dæmi frá Sjúkratryggingum. Í öðru er maður sem tekur sykursýkislyf og greiðir í dag ekkert fyrir þau. Hann borgar 31.171 krónu í fyrsta sinn sem hann fær lyfin á tólf mánaða tímabili eftir að nýja kerfið tekur gildi. Greiðslurnar lækka svo verulega en samtals borgar hann 49.102 krónum meira á ári en áður.

Í hinu dæminu er sjúklingur sem tekur sykursýkis-, blóðþrýstings-, og astmalyf. Áður greiddi hann 22.413 kr. í hvert sinn sem hann fékk lyfin. Framvegis greiðir hann 26.583 kr. í fyrsta sinn sem hann fær þau afgreidd á tólf mánaða tímabili en síðan lækka greiðslurnar töluvert. Hann greiðir því 49.727 krónum minna en áður.

„Með þessu þá er í rauninni dregið úr mismunun með tilliti til sjúkdóma og sjúklingahópa. En jafnframt gefst kostu á því á því að færa getum við sagt, auka greiðsluþátttökuna, til þeirra sem hafa mikinn lyfjakostnað vissulega á kostnað þeirra sem nota lítið af lyfjum og eru að borga hlutfallslega lítið,“ segir Steingrímur Ari Arason.

Á heimasíðu Sjúkratrygginga má finna reiknivél sem gerir fólki kleift að reikna út lyfjakostnað sinn í nýja kerfinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×