Innlent

Íslendingur í Dúbæ: "Allir frekar hræddir"

Guðrún Sif býr í Dúbæ í Sameinuðu Arabísku Furstadæmunum.
Guðrún Sif býr í Dúbæ í Sameinuðu Arabísku Furstadæmunum. Mynd/Úr einkasafni
"Þetta var mjög ógnvekjandi, þegar við urðum vör við skjálftann þá hlupum við bara beinustu leið niður,“ segir Guðrún Sif Pétursdóttir, sem býr í Dúbæ í Sameinuðu Arabísku Furstadæmunum.

Jarðskjálfti upp á 7,8 stig reið yfir Íran klukkan ellefu í morgun. Skjálftinn varð við landamæri Pakistan en fannst vel í Delí á Indlandi og í Dúbæ.

Guðrún Sif starfar sem flugfreyja og var stödd heima hjá sér á sextándu hæð þegar skjálftinn reið yfir. „Ég sat inni í stofu með vinkonu minni og kærastanum mínum, það voru akkúrat iðnaðarmenn inni í íbúðinni. Þetta var ekki eins og þegar maður finnur jarðskjálfta á jarðhæð, byggingin sveiflaðist öll til. Það var mjög óþægilegt,“ segir hún.

Þegar þau komu inn í móttökuna kannaðist enginn við neitt. „Ein stelpa sem ég kannast við, spurði mennina í móttökunni: Funduð þið þetta? Og þeir komu alveg af fjöllum, vissu ekkert hvað var í gangi. Svo nokkrum sekúndum síðar fór viðvörunarkerfið í gang og öll háhýsin hérna voru rýmd,“ segir hún.

„Það var mikið af fólki úti á götu og allir frekar hræddir og í miklu áfalli. Þetta var mjög furðuleg upplifun,“ segir hún.

Samkvæmt fyrstu fréttum eru að minnsta kosti fjörutíu látnir í Íran vegna skjálftans. Nánari upplýsingar liggja ekki fyrir á þessarri stundu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×