Innlent

"Menn mjög hræddir og fáir á ferli"

Jóhannes Stefánsson skrifar
Lögreglumaður í Boston
Lögreglumaður í Boston Mynd/ AFP
Melkorka Árný Kvaran, ein þeirra 35 íslendinga sem tóku þátt í Boston maraþoninu á mánudaginn er á leið heim í kvöld ásamt manni sínum. „Ég tók þátt í hlaupinu og var komin í mark þegar þetta gerist. Sprengjan springur svona 30 - 40 mínútum eftir að ég kem í mark. Hótelið okkar er staðsett þar sem sprengjan sprakk." Melkorka var á leið aftur á hótelið þegar sprengjurnar sprungu, en hún var þá um 500 metra frá sprengingunum. "Það er endalaust hvað, ef og hefði í þessu. Hvað ef maður hefði hlaupið hægar eða hraðar og þá verið komin aftur á hótelið? Við erum búin að fara í gegnum allan tilfinningarússíbanann."

Melkorka segir borgina vera allt aðra í kjölfar atburðanna. „Það er engin stemning í borginni. Það er allt hálfgerlega lamað og undirlagt."

Svæðið í kringum sprengingarnar er enn allt girt af og lögregla og hermenn eru mjög víða. „Það er hert eftirlit allstaðar. Það eru lögreglumenn og hermenn með alvöru græjur fyrir utan nýja hótelið okkar."

„Við erum búin að flýta heimförinni og Icelandair bjargaði okkur alveg með það. Við vorum bara fyrir klukkutíma að fá símtal um að við gætum nálgast farangurinn og vegabréfin okkar." Farangur Melkorku var fastur inni á hótelinu vegna sprengjanna en hún þurfti að fara og sækja hann annað vegna þess að hótelið var girt af.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×