Innlent

Bandarísk stjórnvöld beittu Íslendinga þrýstingi vegna Palestínu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra segist ánægður með ákvörðun sína um að styðja stofnun sjálfstæðs ríkis Palestínu.
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra segist ánægður með ákvörðun sína um að styðja stofnun sjálfstæðs ríkis Palestínu. Mynd/ Vilhelm.
Bandarísk stjórnvöld reyndu að beita fortölum gagnvart íslenskum stjórnvöldum þegar þau undirbjuggu viðurkenningu Íslands á fullveldi Palestínu árið 2011. Þær hættu um leið og WikiLeaks málið kom upp. Þetta kemur fram í viðtali Hrafns Jökulssonar við Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra í Reykjavík - vikublað sem kemur út á morgun.

Össur segir að íslensk stjórnvöld hafi íhugað þann möguleika að viðurkenningin gæti hugsanlega leitt til aðgerða gegn íslenskum hagsmunum. „Svo ég lét mína sérfræðinga gera úttekt á öllum hugsanlegum afleiðingum þess að viðurkenna Palestínu. Niðurstaðan var sú, að því fylgdi lítil áhætta. Ég fékk að vísu hringingar úr bandaríska stjórnkerfinu... Þær hættu þegar Wiki-Leaks málið kom upp. Ýmsir evrópskir kollegar, sem ekki gátu orðið samferða, hvöttu mig hins vegar óformlega.

Össur segir að sumir hafi talið að afstaða Íslands myndi frekar styðja okkur en valda skaða og að sú hafi á endanum orðið raunin. „Þetta er sú ákvörðun sem ég er einna stoltastur af - til þessa," segir Össur um viðurkenningu Íslendinga á Palestínu sem sjálfstæðri og fullvalda þjóð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×