Innlent

Sigurður Einarsson ekki óskað eftir nýjum verjanda

Sigurður Einarsson.
Sigurður Einarsson.
Ólafur Ólafsson, sem hefur verið ákærður í Al-Thani málinu, hefur óskað eftir því að nýr verjandi verði skipaður eftir að Ragnar H. Hall sagði sig frá málinu í dag. Það hefur Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, ekki gert. Gestur Jónsson, verjandi Sigurðar, segist þó búast við því að Sigurður óski eftir því að fá nýjan verjanda og að báðir haldi uppi vörnum.

Þetta er meðal þess sem kom fram á blaðamannafundi Gests og Ragnars á Grand Hóteli í dag þar sem verjendurnir tilkynntu að þeir hefðu formlega óskað eftir því að segja sig frá þessu umfangsmikla dómsmáli.

Ólafur og Sigurður, auk þeirra Hreiðars Más Sigurðarsson og Magnúsar Guðmundssonar, hafa verið ákærðir fyrir markaðsmisnotkun og umboðssvik. Þeir geta búist við allt að 6 ára fangelsi verði þeir fundnir sekir.

Ákvörðun verjandanna tveggja kemur á óvart, en þeir tóku báðir fram að þeir hefðu tekið þessa ákvörðun í samráði við skjólstæðinga sína. Á blaðamannafundi var fréttamönnum afhent mappa með fjölmörgum dómsskjölum og öðrum upplýsingum sem verjendurnir vildu meina að sýndi fram á að málsmeðferð gegn sínum skjólstæðingum hefði ítrekað verið brotin. Í fréttatilkynningunni segir orðrétt:

„Í stuttu máli byggist ákvörðun okkar á því að við teljum að réttur skjólstæðinga okkar til réttlátrar málsmeðferðar og jafnræðis við ákæruvaldið við meðferð málsins fyrir dómi hafi ítrekað verið þverbrotinn."

Meðal ástæða þess að þeir telja að brotið sé á rétti þeirra er meðal annars niðurstaða Hæstaréttar Íslands þar sem þeim var synjað um lengri tíma til undirbúnings. Í niðurstöðu Hæstaréttar Íslands sagði raunar að kæran væri að ófyrirsynju sem þýðir á mannamáli að Hæstiréttur hafi litið svo á að þarna væri um tilefnilausa kæru að ræða. En í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur segir um málsmeðferðina:

„Aðalmeðferð í máli þessu var ákveðin fyrir 14 vikum með samþykki allra málflytjenda í tölvuskeyti og í framhaldi af því var tilkynnt um hana sérstaklega í skeyti til verjendanna, sem þá gerðu enga athugasemd."

Svo er bætt við í niðurstöðunni:

„Vegna ákvæðis 4. mgr. 165. gr. laga um meðferð sakamála varð að skilja samþykki verjenda um aðalmeðferðina í tölvuskeytum til dómarans í desember svo að gagnaöflun væri lokið af þeirra hálfu. Jafnframt ber að hafa það í huga að dómari ræður rekstri máls, þ.á m. því hvenær aðalmeðferð skuli fara fram. Getur það ekki verið á valdi málsaðila að tefja fyrir henni með því að geyma sér það að lýsa gagnaöflun lokið."

Og Gestur var ómyrkur í máli á fundinum. Hann sagði umfang þessara sakamála slíkt að það væri fyrir séð að alvarlegt réttarslys yrði fyrr eða síðar. Þá líkti hann málatilbúnaðinum í Al-Thani málinu við Guðmundar- og Geirfinnssmálið. Þá átti hann við að andrúmsloftið í samfélaginu væri sambærilegt, það væri heimtað sakfellingu í málinu.

Þó svo Ragnar og Gestur hafi beðist lausnar frá málinu þá þýðir það ekki að þeir fái lausn. Dómari þarf að samþykkja það. Gestur sagði þó erfitt að neyða verjendur til þess að halda áfram. Spurður hvort það yrði ekki að fresta málinu, en aðalmeðferð þess átti að fara fram næsta fimmtudag, svaraði Gestur því til að það væri augljóst að ekki væri hægt að setja sig inn í málið á örfáum dögum.

Spurðir hvort þeir myndu halda áfram ráðgjafastörfum fyrir Ólaf og Sigurð svaraði Gestur að það hefði ekki verið rætt sérstaklega, en væri líklegt.

Spurðir hvort þeir væru með þessu að reyna að tefja málið, vísuðu þeir í skjölin sem blaðamönnum var afhent, og sögðu þau sýna fram á að málsmeðferð hefði verið brotin á þeim Sigurði og Ólafi.

Greinagerð verjandanna má finna í viðhengi hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×