Innlent

Maður grunaður um að hafa misnotað þroskaskerta konu í fjóra áratugi laus úr haldi

Maðurinn var á Litla Hrauni.
Maðurinn var á Litla Hrauni.
Ekki hefur verið farið fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir karlmanni á níræðisaldri sem er grunaður um að hafa misnotað þroskaskerta konu kynferðislega í fjóra áratugi. Misnotkunin á að hafa byrjað þegar konan var tíu ára gömul, en hún er um fimmtugt í dag.

Talið er að misnotkunin hafi byrjað fyrir um fjórum áratugum þegar móðir konunnar hóf samband við manninn. Það var fréttastofa RÚV sem greindi fyrst frá málinu um miðjan mars. Þar kom fram að maðurinn hafi búið á sveitabæ á Snæfellsnesi.

Samband móðurinnar og mannsins stóð með hléum í áratugi og bjó stúlkan stundum á sveitabænum. Brotum hans gegn henni linnti þó aldrei og samkvæmt heimildum fréttastofu RÚV braut hann síðast gegn henni fyrir skömmu en hann hefur ekki játað brotin. Hann var vistaður á Litla-Hrauni og hefur setið í vaðhaldi í tæpan mánuð.

Lögreglan á Akranesi staðfestir í samtali við fréttastofu að manninum hafi verið sleppt í dag en í samtali við fjölskyldu konunnar kemur fram að mikil óánægja er með þetta. Fjölskyldan íhugar að sækja um nálgunarbann gegn manninum svo hann geti ekki nálgast konuna. Rannsókn málsins heldur nú áfram, en ekki er gefið upp hvort maðurinn hafi játað brot sín.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×