Innlent

Magnús Tumi: Kominn tími á Heklu

Höskuldur Kári Schram skrifar
Almannavarnir lýstu yfir óvissustigi í dag vegna jarðhræringa við Heklu. Prófessor í jarðeðlisfræði segir margt benda til þess að Heklagos sé á næsta leyti.

Sjö smáskjálftar hafa mælst við Heklu á síðustu tveimur vikum allir undir einu stigi. Skjálftarnir eru hins vegar óvenjulegir fyrir þetta svæði og því var ákveðið auka eftirlit með fjallinu.

„Þetta óvissustig þýðir aukna vöktun á svæðinu þannig að það er lítið að gerast þarna og mesta líkur á því að þetta lognist útaf og ekkert gerist, það er líklegasta framþróunin," segir Víðir Reynisson deildarstjór hjá Almannavörnum.

Almannavarnastigin eru þrjú.

Fyrst kemur óvissustig - þegar grunur vaknar um að eitthvað sé að gerast af náttúru- eða mannavöldum. Þar á eftir kemur hættustig en þá er byrjað að rýma svæði. Loks kemur neyðarstig, þá er eldgos hafið.

Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, segir erfitt að spá fyrir um framvindu mála á svæðinu.

„Þessir litlu skjálftar sem þarna eru þeir gætu verið forboðar goss sem gæti komið einhvern tímann á næstunni en þeir gætu líka verið ótengdir kvikuhreyfingum: Það er ekki hægt að segja til um það en vegna þess að þeir eru í nágrenni við Heklu þá verður að reikna með því að þeir tengist henni á einhvern hátt," segir Magnús Tumi.

Hekla gaus síðasta árið 2000 eða fyrir þrettán árum.

„Ef hún ætlar að hegða sér eins og hún hefur gert frá 1970 þá er alveg kominn tími á Heklu. Mælingar sem eru gerðar á landrisi benda til þess að fjallið sé komið í svipaða stöðu og jafnvel upp fyrir það sem var fyrir síðasta gos. Þannig séð er Hekla tilbúin," segir Magnús Tumi að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×