Innlent

Typpin fjarlægð af Laugavegi

"Arkitektatyppin“ á myndinni heyra nú sögunni til.
"Arkitektatyppin“ á myndinni heyra nú sögunni til.
Margir sem nú eiga leið um Laugaveginn taka kannski eftir því að hann virkar rýmri en áður. Ástæðan er sú að búið er að fjarlægja alla polla sem voru innan við fjóra metra frá húsvegg og einnig þá sem þóttu þrengja að gangandi og akandi vegfarendum. Útkoman er breiðari gangstétt og gata vegfarendum til hægðarauka.

Frá þessu er greint á vef Reykjavíkurborgar. Rifjuð er upp að tilgangur pollanna hafi verið að koma í veg fyrir að ökumenn legðu á gangstéttum. Ásýnd götunnar hafi lengi liðið fyrir of marga polla.

Starfsmenn Bílastæðasjóðs munu fylgjast vandlega með Laugaveginum í kjölfarið og eru ökumenn hvattir til að virða mörkin á milli gangstéttar og götunnar. Laugavegurinn verður í sumar fegraður enn frekar í sumar og má búast við að í stað pollanna verði komið fyrir blómakerjum, bekkjum og stólum sem bæta aðstöðuna fyrir gesti og gangandi.

Sumarið 2012 fjölluðu þrjár ungar sjónskertar konur um aðgengismál í miðborginni í skýrslu fyrir Blindrafélagið. Í skýrslunni kemur fram að ósætti er með „arkitektatyppin" eins og þær kalla pollana en þeir hafa verið sjónskertum talsverð hindrun. Borgin kemur nú til móts við ábendingar þeirra en sömuleiðis verða hljóðmerki við gönguljós bætt á þessu ári og stefnt er að því að skapa enn meira rými fyrir fólk með sumargötum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×