Skoðun

Virðing, réttlæti - kjósum Ólafíu til forystu VR

Sigurjón Jónsson skrifar
Kosning um formann VR er nú í fullum gangi og langar mig að gera stuttlega grein fyrir minni skoðun og atkvæði.

Ég hef verið lengi í VR sem er eitt stærsta stéttafélag landsins með ríflega þrjátíu þúsund meðlimi. VR á sér langa sögu en það var stofnað árið 1891 og er því orðið 122 ára. Verkefni VR eru fjölbreytt en það mikilvægasta er að gæta að hagsmunum félagsmanna og vinna í þeirra þágu til að bæta fjárhagslegt og félagslegt öryggi.

Eftir höfðinu dansa limirnir og því þarf VR öflugan leiðtoga sem getur leitt baráttuna sem framundan er í kjaramálum. Það er einmitt þess vegna sem ég mun kjósa Ólafíu. Ólafía er heiðarleg, sanngjörn og einstaklega ákveðinn einstaklingur, en þeir eiginleikar hennar tel ég að muni nýtast vel í forystu VR.

Ólafía hefur verið félagsmaður VR í 29 ár ásamt því að hafa unnið hjá félaginu við ýmis störf, meðal annars í kjaramáladeild. Hún hefur unnið við margskonar störf og hefur reynslu af því að vinna „á gólfinu" og þurfa að ná endum saman á töxtum VR. Hún býr yfir gríðarlegri starfsreynslu og hefur menntað sig og unnið við stjórnun í mörg ár. Það má því fullyrða að hún þekki atvinnulífið vel. Jafnframt hefur Ólafía komið að margskonar félagsstörfum, meðal annars innan íþróttahreyfingarinnar. Hún hefur einnig starfað að jafnréttismálum með setu í stjórn kvennréttindafélag Íslands og Jafnréttisráði.

Í upphafi var VR karlaklúbbur en mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá. Konur fengu aðgang að félaginu árið 1900 og í dag er svo komið að yfir 60% félagsmanna eru konur. VR hefur látið sig jafnréttismál varða en athygli vekur að í 122 ára sögu VR hefur kona aldrei gengt formennsku. Félagar VR þurfa að sameinast í að brjóta glerþakið og kjósa konu í formennsku og gefa þannig tóninn í jafnréttisbaráttunni. Konu sem er virkilega hæf og reynslumikil og getur verið fulltrúi þess fjölbreytta hóps sem myndar VR.

Ég hef bullandi trú á því að Ólafía muni vinna frábært starf fyrir VR og sameina félagið. Að lokum hvet ég alla félagsmenn til að nýta kosningarréttinn.




Skoðun

Sjá meira


×