Innlent

Leifur heppni í norðurljósunum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Stjörnuhimininn yfir Íslandi var sérstaklega glæsilegur í gærkvöldi þegar norðurljósin dönsuðu fyrir landsmenn eins og þeim einum er lagið.

Þetta var annað kvöldið í röð sem norðurljósin heilsuðu svo hressilega upp á landsmenn og fjölmarga erlenda ferðamenn sem geta hrósað happi yfir tímasetningu heimsóknar sinnar.

Egill Aðalsteinsson, kvikmyndatökumaður á Stöð 2, var einn fjölmargra sem var með myndavél á lofti í gærkvöldi. Náði hann glæsilegum myndum af Leifi heppna Eiríkssyni á Skólavörðuholtinu sem tók sig sérstaklega vel út í litadýrðinni. Myndirnar má sjá stærri með því að smella á þær.

Mynd/Egill Aðalsteinsson
Mynd/Egill Aðalsteinsson
Halastjarnan PanStarrsMynd/Gísli Már Árnason
Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness bauð gestum og gangandi í heimsókn í Gróttu á Nesinu í gærkvöldi. Tæplega 300 manns mættu og fengu að njóta sérfræðiþekkingar spekinganna.

Halastjarnan PanStarrs, sem birtist á stjörnuhimninum í síðustu viku, var á sínum stað og náði Gísli Már Árnason myndinni glæsilegu hér að ofan. Þar má sjá halastjörnuna rétt vinstra megin við miðja mynd.

Tunglið og Júpíter áttu einnig mánaðarlegt stefnumót í gærkvöldi svo nóg var að sjá þegar horft var í átt til stjarnanna. Ekki eru líkur á mikilli norðurljósavirkni yfir landinu næstu daga. Hægt er að fylgjast með norðurljósaspá á heimasíðu Veðurstofunnar.

Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness stendur reglulega fyrir viðburðum þar sem gestir geta fengið ráðleggingar og upplýsingar. Er fólk hvatt til að mæta með stjörnukíkja, rykfallna sem ekki, og fá kennslu á gripina.

Fleiri myndir frá gærkvöldinu má sjá á Stjörnufræðivefnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×