Innlent

„Töffaraskapur í aðdraganda kosninga“

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Katrín Júlíusdóttir fjármálaráðherra.
Katrín Júlíusdóttir fjármálaráðherra.
„Hann vissi alveg að þessi vinna væri í gangi og það er heimild fyrir þessu í fjárlögum þannig að það var engin leynd yfir því að þetta stæði til," segir Katrín Júlíusdóttir fjármálaráðherra um fréttir af því að Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hafi ekki vitað af undirritun samnings um kaup Reykjavíkurborgar á landi ríkisins í Vatnsmýrinni. „Menn voru látnir vita í innanríkisráðuneytinu, en svo veit ég ekki hvernig boðleiðirnar eru þar."

Katrín segir ekkert í samningnum sem feli í sér niðurlagningu Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýrinni.

„Þetta hefur verið blásið upp á mjög ósanngjarnan hátt í einhverjum svona töffaraskap í aðdraganda kosninga. Þetta mun ekki hafa nein áhrif á flugbrautirnar sem innanlandsflugið reiðir sig á, heldur snýst þetta um land sem er skilgreint í raun og veru utan girðingar af Isavia sjálfum. Það er heimild í fjárlögum til þess að ganga til samninga við borgina um uppbyggingu á flugvellinum sjálfum og þetta er liður í því. Við vorum með þessu að klára okkar hluta og núna er það innanríkisráðherra að ganga frá því að þarna verði byggt upp."

Katrín segir landið koma inn á litla flugbraut sem sé lítið sem ekkert notuð.

„Menn hafa rætt það svo lengi sem ég man eftir að loka henni alveg og innanlandsflugið reiðir sig ekkert á hana. Ég held að þær umræður hafi byrjað í tíð Sturlu Böðvarssonar sem samgönguráðherra. Þannig að um snýst allt þetta havarí. Blásið upp, og það var nú ekki innanríkisráðherra sem gerði það heldur aðrir."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×