Fótbolti

Tvö hundruð þúsund HM-boltar gerðir upptækir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Það styttist óðum í Heimsmeistarakeppnina í Brasilíu sem fer fram í þessu mikla fótboltaríki á næsta ári. Það gengur ýmislegt á í undirbúningi keppninnar og nú síðast þurftu yfirvöld að gera upptæka tvö hundruð þúsund fótbolta í höfninni í Santos-borg.

Boltarnir voru smyglvarningur frá Kína og voru þetta bæði eftirlíkingar af Jabulani-boltanum frá HM 2010 í Suður-Afríku sem og eftirlíkingar af Cafusa-boltanum sem verður notaður í Álfukeppninni sem fer fram í Brasilíu í júní næstkomandi.

Tollyfirvöld í Santos létu ekki plata sig og tókst að stoppa sendinguna. Boltarnir voru síðan allir eyðilagðir og því verður ekki sparkað í þá í framtíðinni. Enginn hefur þó verið handtekinn í sambandi við málið.

Götusalar sem selja hinar ýmsar vörur tengdum fótbolta eru mjög algengir enda eru "alvöru" vörur mjög dýrar í landinu. Nýjustu treyjur fótboltaliðanna í Brasilíu kosta sem dæmi um 200 brasilíska ríala en lágmarks mánaðarlaun eru í kringum 670.95 ríalar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×