Innlent

Myndarlegur gráhegri heiðrar Hafnfirðinga með nærveru sinni

Gráhegrinn fylgist með öðrum fuglum á tjörninni úr fjarlægð.
Gráhegrinn fylgist með öðrum fuglum á tjörninni úr fjarlægð.
Það var fallegt um að litast við tjörnina í Hafnarfirði þegar Egill Aðalsteinsson, kvikmyndatökumaður á Stöð 2 og ljósmyndari, leit þar við um helgina. Þar sá hann fallegan gráhegra. Hann er frekar styggur og fljótur að fljúga upp ef menn reyna að nálgast hann. HInir fuglarnir láta hann í friði, en Egill varð var við að endurnar veittu því athygli hvers lags furðufugl væri þarna á ferðinni.

Yann Kolbeinsson, fuglafræðingur á Náttúrustofu Norðausturlands, segir að þarna sé um að ræða ungan fugl sem hafi komið í heiminn í sumar. „Þeir eru tíðir vetrargestir um allt land, þó sérstaklega á SV-landi og suður með landinu austur í Skaftafellssýslur. Þar sjást gjarnan smáir hópar sem halda til saman yfir veturinn í grennd við opið vatn (fiskeldi, heitar uppsprettur, lækir osfrv) á hefðbundnum stöðum og nátta sig stundum í grenilundum þar sem þá er að finna," segir hann í svari til fréttastofu.

Hann segir að á höfuðborgarsvæðinu sjáist þeir gjarnan við Hvaleyrarlón, Urriðavatn, Elliðavatn og Keldur. Á árunum 1979-2007 hafi sést hér að meðaltali um 60 fuglar á ári en komum þeirra virðist hafa fjölgað lítillega á síðari árum. Flest bendir til að gráhegrar sem koma hingað eigi uppruna sinn í Skandinavíu, mögulega að mestu leyti frá Noregi. Stakir fuglar sjást stundum hér yfir sumartímann en ekki er vitað til að þeir hafi orpið hér enn sem komið er.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×