Innlent

Vernda þarf ungt fólk fyrir ákafri markaðsetningu á tóbaki

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður velferðarnefndar, segir sjálfsagt að ríkisvaldið gangi hart fram í að vernda ungt fólk fyrir markaðssetningu tóbaki. Það verði þó að gera með málefnalegum hætti.

Velferðarnefnd fundaði með hagsmunaaðilum í morgun. Fulltrúar Félags atvinnurekenda, Samtaka verslunar og þjónustu, Rolf Johansen og Urriðafoss sátu fundinn. Að sögn Sigríðar komu þeir á framfæri óánægju sinni með ákvæði frumvarpsins sem banni sölu á vöru sem höfði sérstaklega til ungs fólks.

„Þeir telja huglægt mat of mikið í því ákvæði," segir Sigríður Ingibjörg í samtali við Vísi. Hún segir fulltrúa hagsmunaaðila meðal annars telja að velferðarráðherra sé of mikið vald fært með reglugerðarheimild varðandi kornastærð tóbaks.

Forsvarsmenn Urriðafoss sögðu í fréttum Stöðvar 2 á dögunum að frumvarpið bryti gegn jafnræðisreglu stjórnarskrár. Ástæðan, segja þeir, er sú að erfitt sé að mæla kornastærð neftóbaksins Skugga, sem Urriðafoss flytur inn, þar sem rakastig er mjög hátt. Sé ekki hægt að mæla kornastærð geti stjórnvöld komið í veg fyrir innflutning á tóbakinu.

Páskaungarnir dæmi um óskýr lög„Þegar dregur úr notkun reykinga reyna menn auðvitað að markaðsetja tóbaksvöru með nýjum hætti og ná til markhópa. Löggjafinn reynir að koma í veg fyrir að það sé hægt. Það getur verið snúið og vandasamt að gera það með málefnalegum hætti," segir Sigríður.

Hún segir fundargesti sína hafa bent á auglýsingar með páskaungum á bjórdósum sem dæmi um mál þar sem lög séu ekki nógu skýr hvað auglýsingar tóbaks og áfengis ræðir.

„Fyrir mína parta finnst mér sjálfsagt að ríkisvaldið gangi eins langt og hægt er í að vernda ungt fólk fyrir aggresívri markaðssetningu. Á hinn bóginn vill maður heldur ekki að það sé gert með gerræðislegum hætti," segir Sigríður.

Málið verður áfram til umfjöllunar hjá nefndinni og Sigríður segir að í ljós verði að koma hvort gerðar verði tillögur að breytingum á frumvarpi velferðarráðherra eður ei.


Tengdar fréttir

Tilgangslaust að banna munntóbak ef reykingar eru leyfðar

Yfirlæknir og lækningaforstjóri heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins telja að lítill sem enginn ávinningur sé af því að banna munntóbak á meðan enn sé hægt að kaupa sígarettur og annað reyktóbak á markaðnum. Þetta kemur fram í umsögn þeirra um frumvarp velferðarráðherra um bann við sölu skrotóbaks.

Breytingar á tóbakslögum sérsniðnar að þörfum ÁTVR

Lögmaður neftóbaksinnflytjanda segir að frumvarp velferðarráðherra um breytingar á tóbakslögum sé sérsniðið að þörfum ÁTVR. Frumvarpið banni sölu á öllu neftóbaki nema því sem ÁTVR framleiðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×