Innlent

Hafnfirðingar lána Reykvíkingum salt

Snjóhreinsun hefur gengið vel í Reykjavík bæði á götum og gönguleiðum í dag. Þá sjá Hafnfirðingar Reykvíkingum fyrir salti þar sem saltbirgðir borgarinnar eru á þrotum.

Snjóhreinsun hefur gengið vel í Reykjavík bæði á götum sem og á gönguleiðum. Snemma í morgun var 10-25 cm jafnfallinn snjór í Reykjavík, um 10 cm í vesturhluta borgarinnar og 25 cm austan Elliðaáa. Mannskapur var ræstur út í nótt með um 30 bíla og tæki. Stærri ruðningstæki fóru á helstu stofnleiðir og dráttavélar á gönguleiðirnar að því er fram kemur í frétt á vef Reykjavíkurborgar.

Ákveðið var að fara einnig í húsagötur í Grafarvogi, Úlfarsárdal, Grafarholti, Árbæ og Breiðholti, sem og húsagötur austan Snorrabrautar. Beðið verður átekta með að fara í húsagötur vestan Snorrabrautar en þar féll minni snjór og jafnframt er spáð hlýnandi veðri á morgun og á mánudag.

„Við tökum þó stöðuna síðar í dag og förum í Vesturbæinn ef þörf krefur á morgun," segir Guðjóna Björk Sigurðardóttir skrifstofustjóri rekstrar og þjónustu borgarlandsins.

Dráttarvéladeild borgarinnar, sem annast snjóhreinsun á gönguleiðum í austurhluta borgarinnar, var með allar nýju vélarnar sjö sem og þrjár vélar frá verktökum á gönguleiðunum í nótt á skilgreindum stofnbrautum. Í framhaldinu var svo byrjað á almennum leiðum, stígum inn í hverfunum og útivistarsvæðum.

Mjög hefur gengið á saltbirgðirnar í Reykjavík en næsta skip með salt kemur ekki að landi fyrr en á mánudagskvöldið. Þá kemur sér vel að eiga góða granna og lána Hafnfirðingar salt í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×