Innlent

Ekkert ferðaveður á Norðurlandi

Mjög hvasst er á norðanverðu landinu og sömuleiðis á Vestfjörðum. Snjóþekja er á Holtavörðuheiði og ófært á Öxnadalsheiði og Möðrudalsöræfum.

Á norðanverðu landinu er víða mjög hvasst, norðaustan 18-25 m/s og slydda eða rigning á láglendi en hríðarveður á fjallvegum. Á Norðvesturlandi er éljagangur, en snjókoma á Vestfjörðum og því takmarkað skyggni og þæfingur á vegum. Ekki er útlit fyrir að veður batni neitt að ráði á þessum slóðum í dag.

Sunnantil er hvöss norðaustanátt, en yfirleitt úrkomulítið. Hvassar vindhviður við fjöll og á sunnanverðu Snæfellsnesi, hvessir talsvert í kvöld. Búast má við ísingu á vegum á SV-landi í kvöld og nótt, þegar léttir til.

Færð og aðstæður

Það er hálka á Sandskeiði en snjóþekja á Hellisheiði og í Þrengslum. Á Suðurlandi eru víða hálkublettir eða hálka en þæfingsfærð er á Mosfellsheiði og Kjósarskarði.

Snjóþekja er á Holtavörðuheiði og Bröttubrekku.

Krapi er á Vatnaleið og á norðanverðu Snæfellsnesi en þungfært er á Fróðárheiði.

Slæmt veður er á Vestfjörðum og víða mjög hvasst. Óveður er á flestum fjallvegum og ekkert ferðaveður. Þæfingsfærð er á Gemlufallsheiði en þungfært er á Steingrímsfjarðarheiði, Þröskuldum og Hjallaháls. Þá er ófært á Hálfdán, Mikladal og Klettsháls.

Óveður víða á Norðurlandi

Á Norðurlandi er óveður mjög víða og ekkert ferðaveður en þó sérstaklega Norðaustanlands.

Um norðvestanvert landið er ófært um Öxnadalsheiði en annars er hálka mjög víða eða snjóþekja en þó er þungfært á Þverárfjalli. Óveður er á Siglufjarðarvegi og í Norðurárdal í Skagafirði.

Norðaustanlands er ófært um Víkurskarð, Hófaskarð og Hólasand en þæfingsfærð er á Grenivíkurvegi og Mývatnsöræfum.

Víðast hvar annarstaðar er hálka eða snjóþekja og jafnvel éljagangur en eins og fyrr segir, alls ekkert ferðaveður.

Vegurinn frá Fáskrúðsfirði og í bæinn auður

Á Austurlandi er ófært á Möðrudalsöræfum, Hárekstaðaleið og Vopnafjarðarheiði. Flughált er í Jökulsárhlíð, á Hróarstunguvegi og frá Eiðum í Unaós en þungfært er á Vatnsskarði eystra og óveður. Óveður er einnig á Fjarðarheiði og er heiðin ófær. Ófært er einnig á Oddskarði en unnið er að mokstri. Hálka eða snjóþekja er á flestum öðrum vegum.

Vegurinn með suðausturströndinni, allt frá Fáskrúðsfirði og suður um er auður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×